Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007
27.1.2007 | 23:22
Heimurinn stækkaði
Lyktarskynið er eitt elstu skynfæranna. Það hefur beinni taugaleið inn í heilann en flest önnur skynfæri okkar og liggur að lyktarskynsberki auk þess sem taugar tengdar lyktarskyni liggja til möndlu (amygdala) og í dreka (hippocampus) sem eru tilfinninga- og minningastöðvar. Það er ástæða þess að ákveðin lykt getur kveikt með okkur mjög sterkar minningar og tilfinningar.
Frá því ég man eftir mér, hef ég tekið eftir lykt og tengt hana fólki og stöðum. Ég hef ekkert betra lyktarskyn en gengur og gerist, ég virðist bara nota það meira vísvitandi en flestir sem ég þekki. Minn skynheimur er því kannski obbolítið öðruvísi en þinn. Ég hugsa í litum, hljóðum, orðum og öllu hinu en þess utan líka í lykt.
Þar sem okkar menning skammast sín fyrir lykt, hef ég ekki mikið auglýst þetta.
Ég er nýbúin að komast að því að það er til fullt af fólki sem finnst sjálfsagt að halda úti heilum vefsíðum um málið og gera list úr lykt. Það eru að sjálfsögðu til ilmvatnsmeistarar og ilmsagnfræðingar, það vissi ég, en þarna er líka fólk sem hefur einfaldlega lyktarheiminn að áhugamáli, rétt eins og ég, og gerir ekki endilega greinarmun á dýrustu ilmvötnum og lyktinni af malbiki eftir rigningu eða mismunandi mengunarlykt borga. Svo er alltaf verið að rannsaka lyktarskyn manna og áhrif þess á atferli okkar.
Þetta var bloggið sem ég datt inn á og hef síðan kannað slóðirnar sem liggja þaðan:
http://perfumesmellinthings.blogspot.com/
Þessi hér er mjög skemmtileg:
http://www.sirc.org/publik/smell.pdf
http://www.sirc.org/publik/smell_culture.html
og margar, margar aðrar - heill heimur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 00:38
Hlustið á þetta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2007 | 19:40
Barna"gælur"
Nei, er reyndar ekki að vísa í níðingsskap með þessari fyrirsögn. Hins vegar hef ég oft velt fyrir mér textanum í vögguvísum sem er oft pínulítið og stundum ekki svo lítið hryllilegur. "Úti bíður andlit á glugga", "í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur", og dettur ekki hreiðrið úr trénu og eggin öll úr í "Rockabye baby"? Man lauslega eftir að einn kennaranna minna við íslenskudeildina hafi líka velt þessu fyrir sér en ekki hvort hún hafði hugmynd af hverju þetta er svona. Kannski svona Rauðhettuaðvörun; hér er hlýtt og þú ert örugg en ef þú ferð ein út í myrkrið....
Og ekki bara vögguvísur. Margrét er búin að læra lag sem hefur alla tíð valdið mér miklum heilabrotum:
"Æ. mamma, gefðu mér rós í hárið á mér, tveir litlir strákar eru skotnir í mér. Annar er blindur en hinn ekkert sér...." Grínlaust, hvað er í gangi hér? Húmor? Áminning um hégómaskap? Rímþurrð? Svo kenndi Mían mér næsta erindi:
"Þegiðu stelpa, þú færð enga rós. Farðu frekar með henni Gunnu út í fjós. Þar eru kálfar og þar eru kýr, þar eru fötur til að mjólka í." Hverskonar forsjárkona er svona trunta við saklaust barn?
Meiri gælurnar.
Einn nýr frá Agli:
Veistu hvernig lóur vinna fyrir sér? Þær pípa yfir blótsyrði í beinum útsendingum. Sbr. "...syngur lóa útí móa, bí, bí, bí, bí..."
Spaugstofan gæti notað þetta í "Fólkið á bak við tjöldin".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2007 | 14:00
Hann á afmæli í dag...
Egill kom með nýjan brandara:
-Mamma, er Brandur með augabrúnir?
-Ja, kannski frekar veiðhár yfir augunum.
-Víst, þær eru bara út um hann allan.
Talandi um samvaxnar augabrúnir.
Annars á Brandó "hérvistarafmæli" í dag, kom sem sagt á þetta heimili fyrir 3 árum, þá spengilegur, ungköttur. Við ætlum að halda upp á daginn, Margrét er með mikil plön og ætlar að halda veislu með honum og mjúkdýrunum sínum. Okkur langar að gefa honum líkamsræktarleikfang, erum farin að hafa áhyggjur af þvermáli hans. Það eru til pennar með leisigeislum sem mynda litla depla á gólfi og veggjum. Hann ærist alveg ef hann sér svoleiðis og hleypur og stekkur þar til hann getur ekki meira. Hins vegar getur verið sárt ef þessu er beint að augunum og það gæti nú alveg gerst í hita leiksins. Svo nú er Kristján að reyna að finna mjótt vasaljós með sæmilega skörpum geisla, það má kannski nota það í staðinn. Svo fær sá loðni eitthvað gott að borða. Svo bætist nú við ístruna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2007 | 13:16
Æ, mig auma
Hún Þorgerður Katrín, menntamálaráðherra, er alveg ótrúlega flott kona á allan hátt. Glæsileg, jafngömul mér, hefur af þrautseigju og metnaði komist til æðstu metorða innan karlaflokks Íslands. Er samt alvörukona svo það sést stundum á henni þreyta eins og okkur öllum.
Hún er mér fyrirmynd.
Hún var mér fyrirmynd.
Því þessi hlakkandi athugasemd hennar um að stjórnarandstaðan hafi "gefist upp" á málþófinu um útvarpsfrumvarpið sýnir að hún hefur lítinn sans fyrir því sem gerir okkur að almennilegum konum: Virðingu fyrir öðrum, hvort sem það eru andstæðingar eða aðrir. Stjórnarandstaðan hefur notað það eina vopn sem hún hefur til að ná fram sínum sjónarmiðum, eða að minnsta kosti nálgast þau, gegn meirihlutanum. Þrátt fyrir að framlagið hafi eflaust verið misgáfulegt voru þau að iðka lýðræði. Þau kunna að vera í lýðræðisstjórn. Menntamálaráðherra greinilega ekki úr því hún lítur á þetta sem einhvern slag þar sem sterkari segir: "Gefstu upp"?
Og ég er raunverulega leið því þarna fór önnur fyrirmynd mín á stuttum tíma í súginn. Hin, Ingibjörg Sólrún, datt af íkonaveggnum mínum þegar hún gat ekki viðurkennt það í aðdraganda síðustu kosninga að hún ætlaði ekki að sinna stöðu borgarstjóra nema þar til hún færi í þingframboð. Mér finnst ekkert að því að vilja ekki láta loka sig í einhverju embætti ef maður veit af öðru sem maður vill frekar, það er bara kvenlegt, en það er óheiðarlegt að viðurkenna það ekki og láta reyna á hvort kjósendum finnst það ekki í lagi, rétt eins og mér. Ég er enn sammála Ingibjörgu Sólrúnu með margt en ég lít ekkert upp til hennar lengur. Eflaust sættist ég á sama hátt við Þorgerði Katrínu þegar fram líða stundir. Ég veit að þeim tveimur væri nokk sama þótt þær eigi ekki lengur stóreygan aðdáenda úti í bæ enda er svoleiðis dýrkun bara vandræðaleg fyrir þær. En mér er ekki sama. Ég þarf að hafa konur sem ég get litið upp til. Nú þarf ég að finna einhverja aðra.
En menntamálaráðherra og þetta kléna útspil hennar fékk mig til að velta stóru máli fyrir mér: Ber þingfólk enga raunverulega virðingu hvort fyrir öðru. "Hæstvirt þingkona..." hefur reyndar fyrir löngu fengið það gildi að geta verið bæði kurteisi og háð. En hvað með annað? Þingið nýtur ekki mikillar virðingar lengur, kannski af því þingfólk sýnir hvort öðru ekki mikla kurteisi. Þá á ég ekki við ljót nöfn og aðdróttanir, svoleiðis getur gerst á bestu heimilum í hita leiksins. Ég á frekar við að samskiptin beri ekki keim af því að öll eru þau á þessum vinnustað af því (mismargir) kjósendur sendu þau þangað. Þau hafa öll umboð á bakvið sig, bara ekki frá sama fólki. Ef það er í lagi að gefa skít í að stjórnarandstaðan sé að reyna að koma fram málefnunum sem þau fengu umboð fyrir (svo nýjasta dæmið sé tekið) þá er verið að gefa skít í alla þá sem kusu þau. Má leiða þetta áfram? Ef þingfólk getur gefið skít í fólk sem er því ósammála, er þá í lagi að aðrir geri það líka? Get ég þá sagt við heimilisfólk mitt: Ég bjó til matinn, mér finnst hann góður, það kemur ekki til greina að salta hann betur og skítt með að þú sért með ofnæmi fyrir fisknum. Éttu hann samt. Ekki? Gefstu upp?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2007 | 10:27
...
Annar sunnudags-blaða-net-rólegheitasunnudagsmorgunn svo ég sleppi bara fyrirsögninni í þetta sinn. Mæli sérstaklega með Víkverja í dag.
Annars var Bryndís hjá okkur í gær og við fórum í sleðaferð og fengum andabrauð hjá bakaranum og fórum og gáfum ógurlega. Svo var borðað mikið af nammi og horft á Söngvakeppni og Spaugstofu.
Svona í lok janúar fer að færast yfir mig mikil garðyrkjuþrá. Ég fer að leggja matreiðslubókunum og glugga í garðyrkjubækur fljótlega. Nú fer nefnilega að renna upp tími sáningar og mér dettur æ fleira í hug sem mig langar að prófa að rækta. Allar þessar venjulegu kryddjurtir, auk fleiri ávaxtatrjáa og svo vil ég gera tilraun með grasker. Svo þarf ég að pota niður hvítlauk úti í garði um leið og frost fer næst úr jörðu. Og þeim haustlaukum sem ég kom ekki niður í október. Og huga að vorlaukunum. Og eitra fyrir meintri ranabjöllu. Og klippa runna. Og ná mér í fullt af stórum pottum til að hafa í salat og fleira gott. Svo langar mig að raftengja þá potta því ég vildi gjarnan sjá feitu fressin úr nágrenninu stökkva upp í stórum boga þegar þau reyna að hægja sér í þá.
Dagurinn fer í heimsóknir og kannski ég líti eftir hægindastól í stofuna líka, verð á ferð í húsgagnaverslanahverfinu Kópavogi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2007 | 14:01
Kannanir
Ég lærði nýtt orð í dag. "Spelunking". Það þýðir "hellakönnun" en ekki veit ég hvaðan þetta kemur. Magnað. Eins og eitthvað úr Línu Langsokk. Svo slær maður þessu flissandi upp á netinu og fær milljónir niðurstaðna um hellarannsóknaklúbba og annað þessu tengt. Urban dictionary er líka með þýðingu á þessu notadrjúga orði en hún er að sjálfsögðu blautlegri. Fer ekki nánar í það hér.
Annað með kannanir. Og játningar. Ég er farin að stunda hálfgerðan netvoyeurisma. Ég er farin að lesa reglulega bloggsíðu konu sem ég kannast lítillega við en hitti bara á nokkurra ára fresti. Hún hefur víst ekkert á móti því úr því hún kýs netið sem sinn vettvang en mér finnst þetta kitlandi laumulegt sjálfri, að geta bara athugað hvað hún er að gera, dag frá degi. Þetta er sennilega aðalaðdráttarflið við blogg, það er eins og að liggja á glugga og gægjast á líf íbúanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2007 | 21:21
Plútóbrekka
Við þangað í dag í snjónum og góða veðrinu. Systkinin komust í ham, bæði tvö, og um tíma mátti ekki milli sjá hvort væri meiri töffari. Svo urðu styttri lappirnar þreyttar á að labba upp brekkuna í 200. sinn svo við mæðgurnar fórum og gáfum andabrauð meðan Egill kláraði einhverja keppni við stráka sem hann hitti. Þegar við komum að Tjörninni voru þar múgur og margmenni og ég hélt þar af leiðandi að það yrði lítil lyst á brauðinu okkar. Svo reyndust þetta vera tómir túristar sem beindu bara myndavélum að fiðurfénaðinum en gáfu þeim ekkert að éta. Enda voru þær fúlar. Þær gerðu aðsúg að okkur svo ég varð að forða Margréti upp á bekk. Samt sýndi hún fádæma hugrekki, hugsaðu þér bara ef þú værir að gefa fuglum sem næðu þér í öxl. Og væru svona aðgangsharðir. Það kláraðist úr pokunum á mettíma og við flúðum.
Í Plútóbrekku var Egill enn á fullu en við lokkuðum hann heim með loforði um heitt kakó.
Ég er enn dösuð eftir tæplega tveggja tíma leik úti. Nú sitjum við hér, hjónaleysin, saman í sófanum en hvort með sína fartölvuna. Æ, þetta þætti nú bara menningarlegt ef við sætum hér hvort með sína bókina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2007 | 21:00
Af Biblíunni og annarri menningu
Við sátum þrjú og borðuðum kvöldmat í gær, ég og börnin. Egill var að velta fyrir sér Biblíunni, hefur verið að grípa niður í hana og velti fyrir sér hlutum eins og "á ég að gæta bróður míns". Svo fór hann að velta fyrir sér muninum á gyðingum og kristnum, gamla og nýja testamentinu. Rétt þegar samræðurnar voru um það bil að verða óþægilega háfleygar, greip Margrét frammí og skákaði bróður sínum: "Ég á líka bæði gamla og nýja Latabæ".
Við Margrét ætlum að eiga stund saman á morgun. Egill er hjá afa og ömmu í nótt og Kristján á helgarvakt svo við mæðgur ætlum í balletttíma (svo gaman að skrifa þetta orð svona) í fyrramálið, svo í göngutúr og svo jafnvel hádegismat. Ljúft. Svo fer ég jafnvel í bíó með þau bæði, ef nenna er til. Aumingja Kristján, alltaf hátíð þegar hann er að vinna. En þegar kötturinn bregður sér af bænum...
Annars er ég rosalega dofin í kollinum núna, nánast botnfrosin af skammdegisdrunga. Bendi þess í stað á bloggið hennar Öddu sem er með svaðalegra móti í dag. Slóðin er hér neðar og til vinstri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2007 | 16:24
Jólagjöf ársins
Í morgun komst ég að því að það er hægt að kaupa sér áruhreinsara í úðaformi. Það gleður mig mikið enda er ég orðin langþreytt á að nota venjulega tusku sem skilur bara eftir sig strik. Æ, þið vitið hvernig þetta er, martröð allra húsmæðra. Ég læt slóðina fylgja:
http://www.puls.is/xodus_product.aspx?MainCatID=9995&id=20
Mikið er þessi snjór æðislegur. Örfín logndrífa sem býr til rjómabollur úr hverju sem undir verður. Best að kippa með sér snjótþotunni þegar ég næ í Margréti og tæta svo og trylla á leiðinni heim. Kannski fylgir Brandur okkur, hann gerir það gjarnan þegar við leikum úti. Sérstaklega í snjó. Þá leikur hann moldvörpu og plægir í gegnum snjóinn svo ekkert stendur upp úr nema skottið.
En fuglarnir eiga dálítið bágt. Ekki get ég gefið þeim lengur....helv. kötturinn...en þið skuluð vera dugleg. Fyrir utan þýðendadeild RÚV er alltaf slatti af hröfnum, mér skilst að þeir séu 6 sem hafa lögheimili þar, og þar eru þeim gefnir afgangar úr mötuneytinu þegar harðnar í ári. Þeir eru því feitir og fínir og einn þeirra tók fyrir okkur dans í morgun. Hann var að tosa eitthvað freðið æti undan snjónum og gerði það með því að grípa í það með goggnum og stökkva svo hátt upp og aftur á bak. Gerði þetta nokkrum sinnum þar til það losnaði og hann datt næstum á bakið.
Ég telst víst orðin gömul í bransanum. Komst að því þegar ég var að finna gamla þýðingu á mynd sem á að fara að sýna í sjónvarpinu. Ég fann hana, las og komst að því að ég man EKKERT eftir henni. Eins og það hafi einhver annar en ég þýtt hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)