Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2006

Enduraðlögun

Ég hef lengi fylgst af áhyggjublöndnum áhuga með viðbrögðum við gróðurhúsaáhrifum og nú áðan fann ég grein í (net)Times sem mér finnst lýsa vel núverandi ástandi.

http://business.timesonline.co.uk/article/0,,9068-2302045,00.html

Evrópusambandið vill auka hlut "biofuels", eða eldsneytis úr plöntuolíum, úr 0.8 prósentum í 5.75 árið 2010. Þá stígur fram á sviðið talsmaður Unilever (risafyrirtæki sem framleiðir m. a. smjörlíki og snyrtivörur sem eru að mestu leyti plöntuolía) og bendir á að ef þetta komi til framkvæmda muni verð á matvælum snarhækka, auk þess sem almenningur muni borða meira af ódýrari afurðum úr dýrafitu og þannig stefna heilsu sinni í hættu. Sem aftur muni hækka mjög allan sjúkrakostnað á komandi árum.

Í greininni er líka tekið fram að nú þegar séu bændur á Amasón svæðinu og í SA-Asíu farnir að ryðja skóg til að rækta meira af eldsneytisríkum plöntum og að ef þessi áætlun Evrópusambandsins ætti að ganga upp þyrfti að nota ríflega 70 prósent af ræktunarlandi í Evrópu til eldsneytisræktunar. Talsmanni Unilever finnst því að ráðamenn ættu að einbeita sér að því að þróa aðrar aðferðir til eldsneytisframleiðslu.

Breytingar á lífsstíl munu á næstu áratugum verða öfugar við það sem gerst hefur á síðustu öldum, á útþenslutíma Vesturveldanna. Það er óhjákvæmilegt að neysla dragist gífurlega saman með öllu sem því fylgir, fyrirsjáanlegu og ófyrirsjáanlegu. Fyrst og fremst mun hraðinn minnka því það er forsenda þess að hægt sé að gera hlutina af natni og hagkvæmni. Okkar núverandi, einnota lífstíll hlýtur að víkja, fyrst fyrir nýtni kynslóðar ömmu og afa og síðar enn einfaldari lífsháttum. Þegar vöruflutningar dragast saman mun lífið verða bundnara árstíðunum og svæðisbundnum afurðum.

Afturhvarf til fortíðar? Varla, við búum áfram að hinni umhverfisvænu upplýsingabyltingu sem ekki er séð fyrir endann á.

 Nema í ljós komi að símabylgjur brjóti niður DNA eða eitthvað álíka.

 

 

 


Stöðutékk

Þessa dagana er ég að koma mér almennilega fyrir í nýju skrifstofunni minni hér í Reykjavíkurakademíunni.

Lífið hefur undanfarið snúist um sumarfrí og -leiki í þessu góðra veðri sem hefur ríkt í Reykjavík (frá því litla isöldin í júní leið undir lok). Eins og venjulega ríkti þvílík ládeyða í júlí að ég hef ekki séð ástæðu til að blogga. En nú finn ég fyrirboða þessarar fjörgunar sem verður alltaf eftir verslunarmannahelgina, þegar fólk vaknar upp við að nú er hásumrinu að ljúka og best að klára það sem klára átti áður en skólar, leikhús, námskeið, listasýningar, bókaútgáfa, íþróttaæfingar og allt hitt byrjar á fullu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband