Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Hmmmmm....

Var svo sem ekki búin að nefna það en ég hef tvisvar fundið löng, dökkbrún hár í sturtunni. Kristján sver og sárt við leggur að hann hafi ekki farið með neinum í sturtu sem er með sítt, brúnt hár og ég hætti bara að hugsa um málið. Þar til í kvöld. Þegar birtist stór flóki af dökkbrúnu hári á stofugólfinu.

Þetta er ekki mannshár en samt ekki plasthár. Þetta er af...einhverju. Og svo er skrítin lykt af flókanum. Dálítið dýrsleg. Krakkarnir vissu ekkert um málið og Brandur vildi ekki tjá sig frekar en fyrri daginn. Vonandi er hann ekki farinn að veiða svartálfa eða einhver önnur fyrirbæri. Og hvað með sturtuna? Það er mánuður eða meira síðan hárin fundust í henni og þá var Grýla örugglega ekki vöknuð þótt hún gæti vissulega verið komin á stjá núna.

Hrollvekjandi.


Innrás kroppaþjófanna

Já, ég veit. Þetta er ferlega slöpp þýðing. En ástæða titilsins er að ég held að það hafi einhver önnur en ég vaknað í bólinu mínu í morgun. Einhver sem vildi allt í einu morgunkaffið sitt svart og kom svo ekki tannþræðinum milli tanna sem hefur hingað til verið gjá á milli. Frekar vírað.

En það var ekki skipt um hversdaginn minn. Bara sama vinnan og heimilisstússið. Kristján og Margrét fara norður á morgun og það stóð til að nota helgina til þrifa en svo barst mér óvænt heilmikil vinna sem ég ætla að klára af í staðinn. Fínt, þetta verður feitur desember. Kannski svo feitur að ég geti ráðið fólk í þrifin hérna. Það væri eina vitið.


Laufabrauð 2006

Snorri og Soffía tóku á móti klaninu síðasta sunnudagskvöld og það var skorið eftir kúnstarinnar reglum og líka eftir alveg glænýjum reglum. Hafa ekki sést jafn margar flottar kökur fyrr þótt jólastemningin hafi ekki alltaf verið til staðar. Ég vísa þar í Ghostbusters, orkídeumynstrið, kókflöskur og töluvert af prófílum af óþekktu fólki. Auk þess sáust aftur í ár fléttur af ýmsum gerðum.

Eins og sjá má af meðfylgjandi myndum, og fyrirsjáanlegt var, fer yngri kynslóðinni stöðugt fram að fríðleik og atgervi. Hitt kom meira á óvart að eldri ættarlaukar blómstra líka sem aldrei fyrr og raunar orðið erfitt að ímynda sér hvernig þetta endar eiginlega.

Mínar myndir heppnuðust ekki sem skyldi, fyrir utan portrett af Snorra sem ég er að hugsa um að stækka upp í meter x meter og setja á stofuvegginn hjá mér. Þó set ég slatta inn á flickr svæðið mitt og bið þig nú að smella á eftirfarandi slóð: http://flickr.com/photos/44578085@N00/

Elsku Snorri og Soffía, hjartans þakkir og ég vona að steikarbrælan sé farin út og flækingslæðan hætt að að ásækja ykkur.

 


c_documents_and_settings_owner_my_documents_my_pictures_laufabrau_2006_snorri_og_soffia.jpg

Eymingja Arnaldur

Ég fór altso og sá Mýrina í dag.

Mikil lífsreynsla. Er ekki frá því að það verði litið á þetta sem tímamótamynd, fyrstu erkiíslensku myndina. Ég var svo sem búin að heyra þetta utan af mér, fór á fyrirlestur fyrir nokkru þar sem myndin var rifin niður vegna klisjanna sem í henni eru og las svo dóm um sama. En ég er jákvæð manneskja og Baltasar og Arnaldur mínir menn svo ég fór glöð í bragði. Brá fyrst þegar kunnugleg myndskeið fóru að hrannast upp en svo var þetta bara orðið fyndið og maður lagði sig fram um að taka eftir minnunum úr öllum íslenskum myndum sem ég hef séð:

Mosagróið hraun, loftmynd tekin lágt yfir það og á töluverðurm hraða. (Eins og byrjunarsena Arnarins) Til staðar.

Ditto loftmynd af vegi gegnum hraun og bíll sem keyrir eftir honum. Til staðar.

Eyðileg strandlengja og hrörlegt hús með brimið í baksýn. Til staðar.

Karlakór. Til staðar og ekki sparaður.

Skeggjaðir sérvitringar. Til staðar.

Óþrifalegir sérvitringar. Til staðar.

Landsþekktir smákrimmar. Til staðar.

Loftmyndir yfir Reykjavík að vetrarlagi, komplett með Hallgrímskirkju og Esjunni. Til staðar.

Jarðhiti og virkjanamannvirki. Til staðar.

Lopapeysa. Til staðar.

Svið. Til staðar.

Kjötsúpa. Til staðar.

Það held ég.

En leikararnir stóðu sig allir frábærlega og alltaf skein í gegn þessi magnaði söguþráður, einhver sá besti sem ég hef lesið lengi, lengi, lengi.


Upprennandi söngfólk

Má til að benda þér á þessa frétt, enda Mían mín í stóru hlutverki þar.

 

http://mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1235562


Páfinn bannar skotthúfur og skautbúning

Vatíkanið gaf í dag út kardínálabréf um að peysuföt og faldar yrðu ekki vel séð klæði utan Íslands hér eftir.

Talsmaður Vatíkansins sagði að: "...gestir ættu að fylgja lögum þeirra þjóða sem þær heimsæktu."

http://english.aljazeera.net/NR/exeres/EB7ED09D-3527-4E8E-BEFE-3D1AB707EE22.htm 

Nei, auðvitað er þessu ekki saman að jafna, ég veit það. Ég sting þessu bara hérna inn af því mér finnst athyglivert að þessi áhrifamikla stofnun sé enn í gegndarlausum hernaði við heiðingjana. Sem, vel að merkja, sjá eflaust lítið athugavert við að kaþólskar nunnur gangi um þeirra lönd í sínum búningum.


Vistvænar hugleiðingar um kúk og piss

Sjáðu bara:

 

http://www.orionmagazine.org/pages/om/06-6om/McClelland.html


Úr heimi framboða og stjórnmálavafsturs

og í minn sem er gersneyddur slíku.

Hah, þú hélst að ég ætlaði að skrifa eitthvað gáfulegt um stjórnmál. Eða skrifa eitthvað um stjórnmál.

Nei, af mér er ekkert að frétta nema mér er illt í auganu og get ekki verið með maskara. Fer því ekki mikið út en vinn eins og bestía hér heima þar sem ekkert gerist nema að Brandur fúlsar við rækjunum sem honum eru boðnar og allar perur farnir í ljósunum á stigaganginum svo maður paufast með óhreina þvottinn niður og þann hreina upp í niðamyrkri á kvöldin. Anda. Rúðurnar mattar af sjávarseltu eftir síðasta storm sem fletti upp malbiki og þeytti grjóthnullungum yfir Ánanaust og þangi alla leið hér upp á Framnesveg og Magnús gluggaþvottamaður svarar mér ekki og Egill ryðst upp stigann með einhverjum félaga sínum og þarmeð er friðurinn úti af því það þarf að sýna mér atriðið sem þeir ætla að sýna á bekkjakvöldi og snýst um að Egill syngi "Hard Rock halelúja" og Valli sé dauðhræddur og detti í gólfið en rísi svo upp aftur. Anda.

Þetta er vitundarflæði úr Vesturbænum.


Smá viðbót

Það hafa 4 manneskjur bloggað um þessa frétt, 3 karlar og ein kona. Körlunum finnst þetta gersamlega út í hött, verða hoppandi reiður yfir vitleysunni. Konan glottir út í annað og finnst þetta greinilega ómerkilegt mál.

Hvað finnst þér? Bara svona af því ég var að tala um kvennsku og mennsku.


mbl.is Græn kona í stað karls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veidiggi

c_documents_and_settings_owner_desktop_aparnir_thrir.jpg

Búin að vera velta fyrir mér gildi þess að segja sem minnst. "Orð eru silfur en þögnin gull" og allt það. Sem gegnheil blaðurskjóða finnst mér þetta orðtæki reyndar ofmetið en ég skil æ betur fánýti þess að reyna að koma einhverju á framfæri við sína nánustu með orðum.

Hlustaðir þú á prédikanir foreldra þinna? Ekki gerði ég það. Í minningunni finnst mér alltaf eins og þau hafi aldrei reynt að koma mér í skilning um gildi heimalærdóms og þrifalegs herbergis en veit að það getur ekki verið. Það bara slökknaði á öllum móttökum í mér þegar þau byrjuðu.

"Ekki gera eins og ég segi, heldur eins og ég geri."Jú, jú, það hljómar náttúrulega mjög vel, svona í fyrstu. En þegar kona pælir í þessu með fordæmin þá er þetta nú bara eins og flest önnur spakmæli: Hljómar smart og svalt en svo er harla lítið á bakvið. Því við erum jú öll ótrúlega brokkgengar fyrirmyndir. Við drekkum, reykjum, sveltum okkur, étum yfir okkur, erum grunnhyggin, hégómagjarörn, gráðug, löt, full fordóma og þröngsýn. Og þá er ég að tala um okkur sem teljast þroskaðar og vel menntaðar manneskjur. Förum ekki einu sinni út í plebbana.

Ef við færum eftir fordæmi foreldra okkar og börn okkar svo eftir fordæmi okkar, þá hefðu lestirnir margfaldast gegnum aldirnar og við værum löngu útdauð vegna skorts á skynsemi og kærleika.

En hvað þá?

Vísa í titilinn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband