Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Mus musculus

c_documents_and_settings_owner_my_documents_my_pictures_musin_musin.jpg

Ég veit ekki hvort þú manst það, en hér fyrr í blogginu skrifaði ég um það þegar Margrét hafði það í gegn að keypt yrði músagildra af því "maður bíður þar til kemur mús og setur hana í gildruna". Þetta var skrifað af ákveðnu yfirlæti mömmunnar sem veit betur. Eða taldi sig gera það.

Við Margrét vorum að koma heim eftir leikskóla á miðvikudaginn. Þegar ég gekk fram hjá baðherberginu sá ég Brand þar inni. Ég gekk áfram til að losa mig við fötin og....spóla til baka. Brandur á baðherberginu?! Gerist ekki. Nema með aðstoð 1-2 fullorðinna, fílefldra manneskja.

Ég leit því aftur inn og sá hvar hann lá í makindum á baðmottunni. Með mús í kjaftinum. Ég skellti hurðinni svo hún kæmist ekki inn í íbúðina og sagði Margréti að fara frá, svipti aftur upp hurðinni og stökk inn. Og öskrandi upp á klósett því Brandur hafði sleppt músinni sem skaust um gólfið. Já, ég skammast mín fyrir þetta. Svo æpti ég til Margrétar að ná í músagildruna og rétta mér. Þegar ég var komin með hana í hendurnar, náði ég músinni og fór sigrihrósandi með hana fram. Svo það er greinilegt að Margrét vissi hvað hún söng þarna um árið. Brandur sat undrandi eftir, hefur sennilega reiknað með að ég ætlaði með hana á diskinn hans.

Mýsla var skoðuð í bak og fyrir, sökuð um að vera rottuungi en eftir leit á netinu kom í ljós að þetta var húsamús. (Veit ekki hvort latínuheitið hér að ofan er rétt en held það.) Hún fékk gráfíkju með smjöri og osti inn í gildruna og var skoðuð meira og ljósmynduð meðan hún brölti yfir matinn sinn og makaði sig alla út.

Svo keyrðum við með hana niður í Ánanaust og slepptum henni þar undir stein. Á leiðinni fékk ég endanlega sönnun þess hvaða dýr þetta væri þegar sterka músarlykt lagði um bílinn.

Til allrar hamingju rættist spá Kristjáns ekki en hún var sú að Brandur kæmi heim daginn eftir með mús í kjaftinum og spyrði: "Má ég fá smjör á þessa líka?"


Fleiri myndir

Mánudagurinn 13?

Þetta er skrifað á bókasafninu. Og af hverju? Jú, af því við Egill erum læst úti, aukalykilinn sem hefur ALLTAF verið á leynistað úti var tekinn inn fyrir nokkru og eini lykilinn á Akureyri og kemur ekki suður fyrr en undir kvöldmat.

Ég ætla bara að sitja hérna, alveg kyrr, þar til ég get sótt lykilinn og þá ætla ég heim og fela mig undir rúmi.


Sunnudagurinn 13?

Hvað er að gerast? Já, ég veit að ég braut spegil í fyrradag en komonn!

Dagurinn var fínn framan af. Svo leið að því að ég færi með Egil í pössun til afa og ömmu af því ég ætlaði með Klöru á Pinu Baush í Borgarleikhúsinu klukkan 8. Ég hafði litlar áhyggjur af því þótt drengurinn væri úti, hann var með gemsa um hálsinn. Svo ég hringdi í hann. Og Egill svaraði ekki. Og ég hringdi aftur. Og sendi SMS. Og rétt fyrir sjö fór ég að hringja heim til félaga hans. Enginn hafði séð hann síðustu tímana. Rúmlega sjö fór ég að búa mig undir að semja við föðurinn um að hann kæmi hingað heim og tæki á móti drengnum þegar hann sýndi sig. Þá heyrði ég að strákagengið var komið hér inn í garð svo Egill náðist og var settur inn í bíl. Þegar ég keyrði af stað fann ég að ekki var allt sem skyldi með bílinn og jú...sprungið á afturdekki. Ég hringdi í Klöru og bað hana að koma sér sjálfa í leikhúsið, hringdi í leigubíl og fór með drenginn til afa og ömmu og fékk þar lánaðan bíl til að klára þetta dæmi.

Millikafli: Sýningin var hreint frábær! Tónlistin, dansinn, leikmyndin...allt!

http://www.pina-bausch.de/

Á leiðinni út úr Borgarleikhúsinu lenti ég í árekstri við konu og missti gersamlega jafnvægið. Ímyndið ykkur að standa í mannþröng og hafa bara pláss fyrir hænuskref aftur á bak og annað áfram. Og lenda svo í árekstri. Til að detta ekki greip ég í kjólinn hjá konunni við hliðina og steig aftur á bak ofan á tána á Klöru. Báðar fyrirgáfu mér en þetta var ferlega vandræðalegt samt. Svo missti ég farsímann upp úr veskinu, í stéttina og lokið datt af honum.

Ferðin heim gekk vandræðalaust, bæði á Hlíðarveg og í Fögrubrekku og svo keyrði Jón okkur Egil heim.

Hér við útidyrnar, meðan ég var að stinga lyklinum í skráargatið, dundaði Egill sér við að sveifla lyklinum sínum í hringi á bandinu og sló kippunni svo illilega í fingurinn á mér að sprakk undan og og fingurinn er blár og bólginn.

Nú er ég að hugsa um að koma mér í rúmið, hafandi deilt þessu með þér, og ljúka þessum degi áður en eitthvað fleira gerist.

 

 

 


Brandó:24

img_0075.jpg

                                                             

Það var á þriðjudaginn sem við höfðum ýsuna í kvöldmatinn. Það var heilmikill afgangur, nóg til að fæða þurftalitla fjölskyldu á Suðurhveli jarðar í viku eða 2 máltíðir fyrir Brandó. Daginn eftir var kjúklingur í matinn og afgangur af honum líka. Það kvöld var sá loðni farinn að láta á sjá og orðinn gliðsa við átið. Eftir á lagðist hann upp í rúm, á bakið, og horfði stjörfum augum til lofts. Það náðist því miður ekki mynd af því.


Svarið við lífsgátunni

Þessi þriðjudagur hefur náð að vera afskaplega pirrandi, þrátt fyrir að enn sé ekki komið hádegi. Ég hef semsé lent illilega í tvíbókunum Reiknistofunnar og er nú með hálft bankaútibú að reyna að fá botn í debitreikninginn minn. Svo rakst ég á skápakarlrembuna í lífi mínu sem taldi sér skylt að commentera á þátt sem ég er að fara að þýða og tjá mér að þetta væri feminísk útgáfa af West Wing og ylli sér ógleði. Hvernig ber mér að skilja þetta? Að þátturinn sé líkur West Wing og rembunni þyki sá þáttur leiðinlegur? Að West Wing sé ágætlega heppnaður en femínísk útgáfa af honum sé leiðinleg? Eða bara að sú kjánahugmynd að kona væri Bandaríkjaforseti sé bimbófantasía sem valdi hverjum raunveruleikatengdum manni ógleði? Það versta er að tiltekin remba er manna hörundsárastur fyrir því að lítið sé gert úr réttindum karla og hefur EKKI húmor fyrir slíku.

Hafandi sagt þetta þá hef ég ekki einu sinni séð þáttinn og það getur vel verið að hann sé ógleðivaldandi en tæpast vegna þess að aðalpersónan er kona í karlastarfi.

En lífið er ekki bara svart, ónei. Ég fann semsagt svarið við lífsgátunni á Vísindavef Háskólans í gær og enn og aftur sannar það sig að það var ekki rétta svarið sem vantaði heldur rétta spurningin og ég vil þakka Ævari Þóri Benediktssyni fyrir að detta ofan á hana. Njótið vel:

http://visindavefur.hi.is/?id=6160

Annars var þjónustufulltrúinn minn í bankanum að hringja og segja mér að ég væri ein af örfáum heppnum sem fá að halda áfram í tvíbókunum Reiknistofnunarinnar eitthvað fram eftir degi. Reikningar annarra hafa verið leiðréttir en sem sagt ekki minn.


Bjartur blámi

Það er rok og rigning, kalt, laufin fjúka blaut um allt og bílarnir skvetta úr pollum upp á gangstéttir. Svo ég vitni í Garfield: "This is all so perfectly depressing, I can't wipe this smile off my face."

Heillandi grein í Birtu í dag um sögu fingrabendinga. Það flottasta, fannst mér, er að V-merkið á sér þessa sögu: Í einhverjum af fjöldamörgum átökum Breta og Frakka gegnum tíðina, voru Frakkar ráðandi um tíma á Bretlandi og vinsæl skotmörk bogaskytta. Þá tóku þeir upp á því að höggva vísifingur og löngutöng af þeim sem voru grunaðir um slíkt athæfi og koma þannig í veg fyrir frekari skothríð. Bretar svöruðu með því að rétta upp hönd með þessum tveimur fingrum uppréttum og það þýddi einfaldlega: "Hef enn bogfingurna, passaðu þig bara".

Svo var ég að frétta af nýju orði "Wikiality" sem þýðir einfaldlega "raunveruleiki sem við komum okkur saman um".

Hvað væri það á íslensku? Wikreynd?


Járnviðvörun

Ég fékk rétt áðan skeyti frá Better Homes and Gardens sem töldu að ég hefði áhuga á og þörf fyrir rimlagardínur. Ég fór að velta fyrir mér af hverju ég fengi skeyti frá þeim, reyndi einu sinni að líta á nokkur garðyrkjutímarit á þeirra vegum en gafst fljótt upp á því og "afáskrifaði" mig.

Ég ákvað þá að fara á slóðina sem þeir buðu upp á og losna við þá en, ó mig auma, fór að lesa nöfnin á landbúnaðartímaritunum og er nú komin í netáskrift að "Ageless iron alerts".

Nei, ég hef ekki hugmynd hvað þetta er. Ég læt ykkur vita.


Veðurvæntingar og fleira

Meiri heimsósómi, er ég hrædd um.

Þannig er að mér datt í hug í gær, meðan ég horfði á veðurfréttir hádegisfréttar Stöðvar 2, að það væri eitthvað stóreinkennilegt við framsetningu þeirra. Svo rann upp fyrir mér að veðurfréttamaðurinn var að reyna að selja mér veðrið. Hann gaf í skyn að þótt liti út fyrir rigningu næstu daga, yrði þó hiti víðast í tveggja stafa tölum og "miðvikudagurinn kæmi bjartur inn". Það er eitthvað kindarlegt við þetta, að minnsta kosti fyrir svona RÚV-rafta eins og mig sem viljum bara fá spár og veðurlýsingar án skreytinga.

Svo fór ég að hugsa þetta lengra og þykist nú hafa komist að þeirru niðurstöðu að þetta sé vegna þess að fólk hafi ákveðnar væntingar af veðrinu og Siggi Stormur hafi viljað fara varlega í að ganga gegn þeim. Við erum sem sagt orðin svo vön að geta stjórnað umhverfi okkar að við erum hætt að skilja að veðrið er...bara veðrið. Því stjórnar maður ekki.

Þetta eru svo sem ekkert nýjar pælingar í mér. Ég man enn þegar ég vann á Innanlandsflugi Flugleiða (hér fyrir margt um löngu) og lenti í því að reyna að útskýra fyrir reykvískum athafnamanni, sem VARÐ að komast á fund til Hornafjarðar, að það væri ófært. Alveg ófært. Landleiðina, flugleiðina, sjóleiðina og hugleiðina. Á meðan ég reyndi að koma honum í skilning um að þetta væri ekki úrræðaleysi starfsfólksins að kenna, var rokið byrjað að fletta þakinu af flugstöðvabyggingunni og snjóbíllinn beið mín af því Reykjavík var líka gersamlega ófær bílum. "En þú skilur þetta ekki, ég verð að komast í dag, annars verður það of seint".

Eftir á að hyggja getur vel verið að þetta hafi snúist um eitthvað allt annað en bisness hjá manninum, kannski ætlaði hann að taka til máls í brúðkaupi fyrrum kærustunnar þegar presturinn bauð kirkjugestum að tjá sig um meinbugi á verðandi hjónabandi. En það var samt þetta algera skilningsleysi hans á því að það væri ófært og ekkert hægt að gera í því sem situr í mér enn í dag.

Nú hefur sumarið verið alveg sérlega gott og það sem af er haustinu líka. Óvenjuleg hlýindi og blærinn yfirleitt ósköp blíður. En nei, fólk er óánægt og finnst að það ætti að hafa verið meiri sól. Og þá spyr ég: Samkvæmt hvaða stöðlum? Hvar fær fólk þá hugmynd að með réttu ÆTTI að vera meiri sól hér á sumrin? Og nú erum við alveg að koma að kjarna heimsósómavælsins í dag því það snýst ekki um veðurvæntingar heldur...amerískt sjónvarp og bíó!

Ég slæ því hér með fram að Íslendingar horfi á svo mikið af frá Ameríku, og þá langmest frá Kaliforníu, að þegar þeir líta út um gluggann hér heima sjái þeir lélegt veður á Kaliforníuvísu.

Þess vegna þarf að afsaka 15 stiga hita og dumbung á Íslandi í september.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband