Bloggfærslur mánaðarins, október 2006

Sýnum kvendóm!

c_documents_and_settings_owner_desktop_images.jpg

 

Hvað eigum við að gera til að fá fleiri konur á þing? Ég hef ekki svar við því. En mig langar að prófa hugmynd sem ég hef gælt við lengi. Hún er um tungumálið. Ég er náttúrulega uppalin við þá hugmynd að tungumálið sé upphaf og endir alls, bókstaflega, og þar sem mál er mitt efni, liggur beint við að heyja sjálfstæðisbaráttu mína þar. Hér eftir verður þetta blogg á kvennsku en ekki mennsku. Því þegar tungumálið á orðið við konur, fara hlutirnir loksins að verða skiljanlegir. Því spái ég.

Burtséð frá þessari hetjulegu ákvörðun er lítið að frétta. Þvottavélin okkar bilaði og ég útskúfaði henni þar með. Hún er búin að kosta okkur jafnvirði sitt í viðgerðum á 6 árum. Við kaupum nýja og það ekki síðar en á morgun.

Við erum að fara í afmæli til Birnu á eftir og hlökkum til að hitta liðið.

A vista.

 


Allrasviðamessa

c_documents_and_settings_owner_my_documents_my_pictures_2006_04_06_img_0117.jpg

Í "Sögu daganna" segir að Allraheilagramessa hafi verið 1. nóvember og helgidagur allra dýrlinganna sem komust ekki fyrir í almanaksárinu. Þá átti að gefa ölmusu. Daginn eftir var svo Allrasálnamessa. Árni Björnsson nefnir að líklega hafi eldri vetrarfagnaður á þessum tíma fest svona í sessi við kristnina. Ekki kemur fram hvaða fagnaður það hafi verið en hugurinn fer á flug þegar hann nefnir svo að til hafi verið sviðamessa hér, þegar sviðin voru étin nokkru eftir lok sláturtíðar. Kannski íslensk uppskeruhátíð.

Gaman væri nú ef uppskeruhátíð yrði aftur tekin upp hér og þá gætum við holað út kindahausa og kveikt á kertum í þeim svo ljósið skini fagurlega út um augun.

 Það skal tekið fram að húsbóndinn á allan heiður af þessu grimmdarlega graskeri.


Hví?

Skoðaðu þetta myndband. Sjáðu hvað maðurinn fær í verðlaun. Nánar tiltekið hvernig verðlaunin eru klædd.

Þetta er svo vírað að það vekur ekki einu sinni hrylling. Ef þetta er innsýn í þjóðarsál (og þjóðarkransæðar) Úkraníumanna...


mbl.is Át heilt kíló af svínafitu á 20 mínútum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illviðri og rafmagnsleysi í Svíþjóð...

...er ekki allt í lagi, Þóra mín?

Dálítið firrt að setja þessi fyrirspurn hér, sérstaklega ef það ER rafmagnslaust hjá þér.

 


Lækningar

Kötturinn er haltur. Óljóst af hverju, það sést ekkert á löppinni. En hann haltrar hetjulega um allt. Vona að hann verði búinn að jafna sig á morgun. Vildi að ég ætti svo triscanner eins og þau í Star Trek. Þá myndi ég bara veifa honum yfir dýrinu og sjá á skjánum hvað væri að. Sama mætti gera með soninn, hann þjáist af magaverkjum og steinsmugu en hún er reyndar ekki jafn undarleg. Hann viðurkenndi að hafa kyngt heilum tyggjópakka. Með sætuefni. Ef ég beindu scannernum að dótturinni myndi sennilega bara koma broskall á hann. Vildi að ég væri svona geðgóð.

Ég var að lesa ferlega skemmtilega bók, "Plötusnúður Rauða Hersins" eftir Vladimir nokkurn Kaminer. Mæli með henni.

Ætli sé eitthvað í sjónvarpinu?


Ja, hérna

Hvað þarf maður að vera í annarlegu ástandi til að finnast góð hugmynd að kippa með sér heitum potti sem verður á leið manns?
mbl.is Tveggja mánaða fangelsi fyrir að stela heitum potti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svalíhalíla

Ég hélt Vetrarhátíð um síðustu helgi. Hvað get ég haldið upp á næst? Kannski ég reyni bara að halda í mér hátíðagleðinni þar til aðventan hefst. Eftir að ég hætti við að útskrifast sem líffræðingur, get ég nefnilega orðið séð dagsetningar án þess að fá hnút í magann og bara leyft mér að njóta þess hvernig ein árstíð tekur við af annarri.

En það er margt planað fyrir aðventuna, það get ég sagt þér.


Æi...

Það er eitthvað svo örþunnur á mér skrápurinn í dag. Fötin stinga mig, það er kalt, ég er þreytt, það er of mikill hávaði. Ég er ekki að veikjast eða neitt slíkt. Þetta er bara þannig dagur.

Ég talaði við vinkonu í gær sem er nýkomin frá Equador og Galapagos-eyjum. Hún lýsti því fyrir mér að í rakanum í regnskóginum hafi hárið á henni lifnað við, krullast og skírst, auk þess sem varirnar á henni urðu bústnari. Nei, ekki af bjúg heldur bara af því allar frumur fengu þann raka sem þær í raun þurfa. Enda var hún þarna á þeim stað sem er talinn, ásamt Afríku, vera vagga mannkyns. Semsagt optimal aðstæður. Hér lægi beint við að segja eitthvað um veðrið hér á skerinu í dag en þess þarf nú eiginlega ekki.

Nú, ég stakk mér að sjálfsögðu beint í aldursreiknivélina sem er gefin upp í Mogga í dag. Við fyrstu, heiðarlegu, útreikningana kom í ljós að ég dey, södd lífdaga, 89 ára að aldri. Þar sem ég hef lengi ætlað mér að verða tíræð, fór ég gegnum þetta aftur og skóf af mér flesta, en ekki alla, ósiðina. Þannig náði ég 96 ára aldri og þá er nú skammt eftir í hundraðið. Stefni á það.


Geðvonska

Geðvonska er sjúklegt sjálfseftirlæti. Geðvonskusjúklingarnir sitja og róa sér í fýlunni af sér, sýrugulri og sleipri mannýgi með hlandvolgum pollum af biturleika.

Ég sting upp á að geðvonska verði skilgreind sem röskun á heilbrigðri heilastarfsemi. Hún fellur einhvers staðar mitt á milli fíknar og ranghugmynda. Meðferðin yrði með atferlisaðlögun og án efa væri hægt að koma henni fyrir í 12 spora flórunni. GA, Geðvondir anonymus.

Ég er afturbata geðvonskusjúklingur. Til skamms tíma var ég morgungeðvond og átti það líka til að vera hreinlega geðvond allan daginn, já, tók einstaka túra sem stóðu vikum saman og skildu mig og mína nánustu eftir úrvinda á sál og líkama. Mér líður miklu betur núna. Hef þó dottið í þurrageðvonsku, fundið fýlufjöðrina vindast upp innan í mér með tilheyrandi tilhlökkun yfir að geta sent heiminum það óþvegið.

Ég sá ljósið þegar einn fjölskyldumeðlima minna fór að slá mig út í snakillsku við morgunverðarborðið. Þegar maður sér spegilmynd af sjálfum sér, rorrandi í svartnætti og pirringi, koma sprungur í þá ranghugmynd að þetta sé óumflýjanlegt ástand og geðvonskugrunnurinn hrynur á stuttum tíma. Eftir sit ég með þá uppgötvun að ég hefði aldrei þurft að vera geðvond yfir höfuð.

Ég syrgi þennan glataða tíma glaðværðar og jafnlyndis sem ég hefði getað notið. En reyni að bera höfuðið hátt og setja upp sólgleraugun svo mín bjarta framtíð blindi mig ekki.


Ja men...Herregud!

Hvað er líka verið að reyna að samræma ósamræmanlega hluti með að gerilsneyða ekki framleiðslu sem á að geyma lengi og selja um langan veg? Ef maður vill ógerilsneytt verður maður að reikna með kröftugri bakteríuflóru og reyna því að innbyrða vöruna áður en sýklaherinn hefur fjölgað sér um of.

Vona að þetta fólk muni ná sér.


mbl.is Lamaðir vegna neyslu gulrótarsafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband