Bloggfærslur mánaðarins, júní 2006

Er ég virkilega orðin svona gömul?

Ég var að blaða gegnum Fréttablaðið þegar ég sá það: Það er verið að setja diskóið og pönkið á Árbæjarsafn. Á minjasafn. Á stofnun sem hefur það markmið að geyma og sýna minjar um löngu...löngu...löngu liðna tíð. Skyndilega fæ ég gigtarstingi í bakið, sjónin dofnar og þyngdaraflið tekur fastar í mig. Best að ég setji upp heyrnartækin og athugi hvort Donna Summers og Stranglers heyrist ekki í Óskalögum eldri kynslóðarinnar í dag.

Fyrir svona hálfu ári fór Margrét með pabba sínum í Byko og kom auga á músagildru, eina svona sem er eins og búr sem músin festist í og bíður þar örlaga sinna. Margrét linnti ekki látum fyrr en gildran var keypt og hefur geymt hana í bókaskáp hér í stofunni síðan. Hún vissi nefnilega til hvers svona tæki var: "Maður bíður þar til kemur mús og þá setur maður hana í gildruna." Ástæða þess að ég nefni þetta er að sú litla er orðin dálítið gleggri á heiminn. Í morgun bað hún um ostbita í gildruna og situr nú með hana í fanginu, horfir á barnatímann og bíður þess að músin renni á ostlyktina.


17. júní 2006

                 Egill klifrar 17. júní           Margrét klifrar 17. júní                

 

Það voru borðaðar pulsur og nammi. Farið með Silvíu Night, International Superstar í blöðrulíki niður í bæ (þar sem hún hitti margar eins fyrir) og flaggað dálítið krumpuðum fána sem fannst upp í skáp.

Við lentum beint á sýningu hjá Brúðubílnum. "Ég hef nú séð þessa sýningu áður." sagði Margrét. Svo veraldarvanir þessir leikskólakrakkar. En það var nú samt gaman. Í Hljómskálagarðinum var nógu mikið af fólki til að 20 mínútna biðraðir voru við alla hoppikastala og rennibrautir. Við Margrét létum okkur hafa það en Egill nennti ekki að standa í því og skemmti sér í staðinn í stóru klifrugrindinni. Við enduðum svo öll þar og hápunkturinn var óneitanlega þegar tveir fallhlífastökkvarar flugu yfir okkur og lentu svo, mjög lipurlega, í svona 20 metra fjarlægð.

Þegar við fórum heim vorum við Egill orðin blaut í fæturna. Málið er nefnilega það að Hljómskálagarðurinn, amk sunnan við Tjörnina, er orðinn að mýri eftir vegaframkvæmdirnar og stóru hljóðmönina sem er búið að moka upp að sunnanverðu. Ég kom þarna í vor, áður en gróður fór að spretta, og gekk þá fram á töluvert stóra uppsprettu við hljóðmönina (furðulegt orð) og það var vatn yfir öllu svæðinu. Í dag dúaði jörðin og það bullaði upp vatn í hverju skrefi. Ég sting upp á að öll jarðröskunin hafi breytt einhverjum af- eða aðrennslisfarvegum úr Vatnsmýrinni og Reykvíkingar eigi nú mýri í stað lystigarðs þarna.

Á leiðinni heim litum við á magadansmeyjar á Ingólfstorgi. Ein þeirra var svona 8 mánuði gengin og dillaði bumbu og bossa af engu minni getu en hinar. Mig grunar að hún muni fara létt með fæðinguna.

Alla vega: Gleðilega þjóðhátíð!

 

 

 


Svo þreyttur...

Ég er bara að drepa tímann þar til klukkan er orðin nógu margt til að fullorðin manneskja geti farið skammlaust að sofa. Ég var að vinna til rúmlega eitt í nótt svo Leiðarljósið blessaða okkar allra færi nú fagurlega þýtt í loftið í dag. Skemmtilegur þáttur, ég er ekki frá því að Matt hafi fengið því framgengt að gufuskapnum yrði skipt út fyrir karlmannlega lund og dirfsku. Enda ekki annað við hæfi, hann er (eða var) eini karlmaðurinn í þáttunum sem hefur einhverja burði til að vera ber að ofan, konum til ánægju, og það er óspart notað og því ætti framkoman að vera við hæfi. Svo Vanessu voru settir úrslitakostir: Láttu mig vernda þig eða... Og Ross var greinilega með bláar linsur. Sem svar við beru brjósti Matts, sennilega.

Jæja, Jón og Egill komu af hjólaæfingu, Egill að verða fullfær, skilst mér. Ég hlakka til að geta farið með honum í hjólatúra niður að sjó á fallegum kvöldum í sumar.

Mér telst svo til að nú geti ég farið kinnroðalaust í háttinn.


Hátíð bleytunnar

 

 

Við fórum semsagt niður á Hafnarbakka og fögnuðum Sjómannadeginum. Það var bara nokkuð gaman, þrátt fyrir úrhellið, og við fórum ekki heim fyrr en var búið að prófa hoppikastala, líta á furðufiska og fara í fallturn og einhverja snúningsgræju og sumar (ég) orðnar blautar í gegnum regngallana.

Svo fórum við heim og Egill fór út á nýja hjólinu sínu með afa.

Nú ert stytt upp og stendur til að kveikja upp í útiarninum og grilla sykurpúða.


10. júní!

Klukkan 4 í dag voru 42 ár frá því að ég skaust í þennan heim. Mér skilst að ég hafi verið mikið af flýta mér þá og enn í dag er mér meinilla við að vera lengi að gera hlutina.

Ég var fyrst á fætur hér á heimilinu í morgun og það út af fyrir sig gerir daginn sérstakan því Kristján hefur hingað til verið kominn fram á undan mér.

Svo skutlaðist ég til að ná í boli handa okkur Margréti og náði í kruðerí í leiðinni. Hlustaði á útvarpið í bílnum og söng hástöfum með "'I'm alive...and the sun shines for me today" og "Celabration".

Kvennahlaupið (les. gangan) var sallafínt. Þar mátti sjá amk 3 steggi, þar af einn sem var mjög flóttalegur á svipinn með stórt skilti sem á stóð "Konur kunna ekki að hlaupa!", og slatta af hundum í grænum bolum.

Seinnipartinn stóð til að kíkja á Hátíð Hafsins og fá sér eitthvað sjávarfang í afmæliskvöldverð en við komum of seint svo við fengum enga humarsúpu og ekki borð á 2 fiskum og enduðum á Thai Crüi og sáum EKKI Bobby Fischer þar. Veit ekki alveg hvernig spilast úr kvöldinu, veðrið er yndislegt og býður upp á labbitúr, í það minnsta.

Hér erum við Margrét, Egill vildi ekki vera með þrátt fyrir nýfengnar grænar vampírutennur.

 

 

 

 


666

Þetta er örugglega algengasta bloggfyrirsögn dagsins í dag.

Enda er þetta greinilega stórvarasamur dagur. Hann er búinn að vera ómögulegur frá því ég vaknaði, bókanir misfórust, vélar biluðu, debitkort klikkuðu og ég gat ekki fengið mér morgunmat af því ég var of sein og smjörið kláraðist og það vita allir að það er ekki hægt að borða ristað brauð smjörlaust. Þar af leiðandi fékk ég ekki að borða fyrr en klukkan 1.30. Nú er ég orðin allt of sein með allt sem ég ætlaði að gera og þarf þar af leiðandi sennilega að vinna í kvöld. Best að hætta þá að eyða tímanum í blogg.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband