Færsluflokkur: Bloggar

Járnviðvörun

Ég fékk rétt áðan skeyti frá Better Homes and Gardens sem töldu að ég hefði áhuga á og þörf fyrir rimlagardínur. Ég fór að velta fyrir mér af hverju ég fengi skeyti frá þeim, reyndi einu sinni að líta á nokkur garðyrkjutímarit á þeirra vegum en gafst fljótt upp á því og "afáskrifaði" mig.

Ég ákvað þá að fara á slóðina sem þeir buðu upp á og losna við þá en, ó mig auma, fór að lesa nöfnin á landbúnaðartímaritunum og er nú komin í netáskrift að "Ageless iron alerts".

Nei, ég hef ekki hugmynd hvað þetta er. Ég læt ykkur vita.


Veðurvæntingar og fleira

Meiri heimsósómi, er ég hrædd um.

Þannig er að mér datt í hug í gær, meðan ég horfði á veðurfréttir hádegisfréttar Stöðvar 2, að það væri eitthvað stóreinkennilegt við framsetningu þeirra. Svo rann upp fyrir mér að veðurfréttamaðurinn var að reyna að selja mér veðrið. Hann gaf í skyn að þótt liti út fyrir rigningu næstu daga, yrði þó hiti víðast í tveggja stafa tölum og "miðvikudagurinn kæmi bjartur inn". Það er eitthvað kindarlegt við þetta, að minnsta kosti fyrir svona RÚV-rafta eins og mig sem viljum bara fá spár og veðurlýsingar án skreytinga.

Svo fór ég að hugsa þetta lengra og þykist nú hafa komist að þeirru niðurstöðu að þetta sé vegna þess að fólk hafi ákveðnar væntingar af veðrinu og Siggi Stormur hafi viljað fara varlega í að ganga gegn þeim. Við erum sem sagt orðin svo vön að geta stjórnað umhverfi okkar að við erum hætt að skilja að veðrið er...bara veðrið. Því stjórnar maður ekki.

Þetta eru svo sem ekkert nýjar pælingar í mér. Ég man enn þegar ég vann á Innanlandsflugi Flugleiða (hér fyrir margt um löngu) og lenti í því að reyna að útskýra fyrir reykvískum athafnamanni, sem VARÐ að komast á fund til Hornafjarðar, að það væri ófært. Alveg ófært. Landleiðina, flugleiðina, sjóleiðina og hugleiðina. Á meðan ég reyndi að koma honum í skilning um að þetta væri ekki úrræðaleysi starfsfólksins að kenna, var rokið byrjað að fletta þakinu af flugstöðvabyggingunni og snjóbíllinn beið mín af því Reykjavík var líka gersamlega ófær bílum. "En þú skilur þetta ekki, ég verð að komast í dag, annars verður það of seint".

Eftir á að hyggja getur vel verið að þetta hafi snúist um eitthvað allt annað en bisness hjá manninum, kannski ætlaði hann að taka til máls í brúðkaupi fyrrum kærustunnar þegar presturinn bauð kirkjugestum að tjá sig um meinbugi á verðandi hjónabandi. En það var samt þetta algera skilningsleysi hans á því að það væri ófært og ekkert hægt að gera í því sem situr í mér enn í dag.

Nú hefur sumarið verið alveg sérlega gott og það sem af er haustinu líka. Óvenjuleg hlýindi og blærinn yfirleitt ósköp blíður. En nei, fólk er óánægt og finnst að það ætti að hafa verið meiri sól. Og þá spyr ég: Samkvæmt hvaða stöðlum? Hvar fær fólk þá hugmynd að með réttu ÆTTI að vera meiri sól hér á sumrin? Og nú erum við alveg að koma að kjarna heimsósómavælsins í dag því það snýst ekki um veðurvæntingar heldur...amerískt sjónvarp og bíó!

Ég slæ því hér með fram að Íslendingar horfi á svo mikið af frá Ameríku, og þá langmest frá Kaliforníu, að þegar þeir líta út um gluggann hér heima sjái þeir lélegt veður á Kaliforníuvísu.

Þess vegna þarf að afsaka 15 stiga hita og dumbung á Íslandi í september.


Enduraðlögun

Ég hef lengi fylgst af áhyggjublöndnum áhuga með viðbrögðum við gróðurhúsaáhrifum og nú áðan fann ég grein í (net)Times sem mér finnst lýsa vel núverandi ástandi.

http://business.timesonline.co.uk/article/0,,9068-2302045,00.html

Evrópusambandið vill auka hlut "biofuels", eða eldsneytis úr plöntuolíum, úr 0.8 prósentum í 5.75 árið 2010. Þá stígur fram á sviðið talsmaður Unilever (risafyrirtæki sem framleiðir m. a. smjörlíki og snyrtivörur sem eru að mestu leyti plöntuolía) og bendir á að ef þetta komi til framkvæmda muni verð á matvælum snarhækka, auk þess sem almenningur muni borða meira af ódýrari afurðum úr dýrafitu og þannig stefna heilsu sinni í hættu. Sem aftur muni hækka mjög allan sjúkrakostnað á komandi árum.

Í greininni er líka tekið fram að nú þegar séu bændur á Amasón svæðinu og í SA-Asíu farnir að ryðja skóg til að rækta meira af eldsneytisríkum plöntum og að ef þessi áætlun Evrópusambandsins ætti að ganga upp þyrfti að nota ríflega 70 prósent af ræktunarlandi í Evrópu til eldsneytisræktunar. Talsmanni Unilever finnst því að ráðamenn ættu að einbeita sér að því að þróa aðrar aðferðir til eldsneytisframleiðslu.

Breytingar á lífsstíl munu á næstu áratugum verða öfugar við það sem gerst hefur á síðustu öldum, á útþenslutíma Vesturveldanna. Það er óhjákvæmilegt að neysla dragist gífurlega saman með öllu sem því fylgir, fyrirsjáanlegu og ófyrirsjáanlegu. Fyrst og fremst mun hraðinn minnka því það er forsenda þess að hægt sé að gera hlutina af natni og hagkvæmni. Okkar núverandi, einnota lífstíll hlýtur að víkja, fyrst fyrir nýtni kynslóðar ömmu og afa og síðar enn einfaldari lífsháttum. Þegar vöruflutningar dragast saman mun lífið verða bundnara árstíðunum og svæðisbundnum afurðum.

Afturhvarf til fortíðar? Varla, við búum áfram að hinni umhverfisvænu upplýsingabyltingu sem ekki er séð fyrir endann á.

 Nema í ljós komi að símabylgjur brjóti niður DNA eða eitthvað álíka.

 

 

 


Stöðutékk

Þessa dagana er ég að koma mér almennilega fyrir í nýju skrifstofunni minni hér í Reykjavíkurakademíunni.

Lífið hefur undanfarið snúist um sumarfrí og -leiki í þessu góðra veðri sem hefur ríkt í Reykjavík (frá því litla isöldin í júní leið undir lok). Eins og venjulega ríkti þvílík ládeyða í júlí að ég hef ekki séð ástæðu til að blogga. En nú finn ég fyrirboða þessarar fjörgunar sem verður alltaf eftir verslunarmannahelgina, þegar fólk vaknar upp við að nú er hásumrinu að ljúka og best að klára það sem klára átti áður en skólar, leikhús, námskeið, listasýningar, bókaútgáfa, íþróttaæfingar og allt hitt byrjar á fullu.


Skrítið niðurlag

Er það bara ég eða er þetta sneið til Ásatrúarmanna þarna í lokin?
mbl.is Myrti fanga sem sýndi ásatrú ekki virðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ég virkilega orðin svona gömul?

Ég var að blaða gegnum Fréttablaðið þegar ég sá það: Það er verið að setja diskóið og pönkið á Árbæjarsafn. Á minjasafn. Á stofnun sem hefur það markmið að geyma og sýna minjar um löngu...löngu...löngu liðna tíð. Skyndilega fæ ég gigtarstingi í bakið, sjónin dofnar og þyngdaraflið tekur fastar í mig. Best að ég setji upp heyrnartækin og athugi hvort Donna Summers og Stranglers heyrist ekki í Óskalögum eldri kynslóðarinnar í dag.

Fyrir svona hálfu ári fór Margrét með pabba sínum í Byko og kom auga á músagildru, eina svona sem er eins og búr sem músin festist í og bíður þar örlaga sinna. Margrét linnti ekki látum fyrr en gildran var keypt og hefur geymt hana í bókaskáp hér í stofunni síðan. Hún vissi nefnilega til hvers svona tæki var: "Maður bíður þar til kemur mús og þá setur maður hana í gildruna." Ástæða þess að ég nefni þetta er að sú litla er orðin dálítið gleggri á heiminn. Í morgun bað hún um ostbita í gildruna og situr nú með hana í fanginu, horfir á barnatímann og bíður þess að músin renni á ostlyktina.


17. júní 2006

                 Egill klifrar 17. júní           Margrét klifrar 17. júní                

 

Það voru borðaðar pulsur og nammi. Farið með Silvíu Night, International Superstar í blöðrulíki niður í bæ (þar sem hún hitti margar eins fyrir) og flaggað dálítið krumpuðum fána sem fannst upp í skáp.

Við lentum beint á sýningu hjá Brúðubílnum. "Ég hef nú séð þessa sýningu áður." sagði Margrét. Svo veraldarvanir þessir leikskólakrakkar. En það var nú samt gaman. Í Hljómskálagarðinum var nógu mikið af fólki til að 20 mínútna biðraðir voru við alla hoppikastala og rennibrautir. Við Margrét létum okkur hafa það en Egill nennti ekki að standa í því og skemmti sér í staðinn í stóru klifrugrindinni. Við enduðum svo öll þar og hápunkturinn var óneitanlega þegar tveir fallhlífastökkvarar flugu yfir okkur og lentu svo, mjög lipurlega, í svona 20 metra fjarlægð.

Þegar við fórum heim vorum við Egill orðin blaut í fæturna. Málið er nefnilega það að Hljómskálagarðurinn, amk sunnan við Tjörnina, er orðinn að mýri eftir vegaframkvæmdirnar og stóru hljóðmönina sem er búið að moka upp að sunnanverðu. Ég kom þarna í vor, áður en gróður fór að spretta, og gekk þá fram á töluvert stóra uppsprettu við hljóðmönina (furðulegt orð) og það var vatn yfir öllu svæðinu. Í dag dúaði jörðin og það bullaði upp vatn í hverju skrefi. Ég sting upp á að öll jarðröskunin hafi breytt einhverjum af- eða aðrennslisfarvegum úr Vatnsmýrinni og Reykvíkingar eigi nú mýri í stað lystigarðs þarna.

Á leiðinni heim litum við á magadansmeyjar á Ingólfstorgi. Ein þeirra var svona 8 mánuði gengin og dillaði bumbu og bossa af engu minni getu en hinar. Mig grunar að hún muni fara létt með fæðinguna.

Alla vega: Gleðilega þjóðhátíð!

 

 

 


Svo þreyttur...

Ég er bara að drepa tímann þar til klukkan er orðin nógu margt til að fullorðin manneskja geti farið skammlaust að sofa. Ég var að vinna til rúmlega eitt í nótt svo Leiðarljósið blessaða okkar allra færi nú fagurlega þýtt í loftið í dag. Skemmtilegur þáttur, ég er ekki frá því að Matt hafi fengið því framgengt að gufuskapnum yrði skipt út fyrir karlmannlega lund og dirfsku. Enda ekki annað við hæfi, hann er (eða var) eini karlmaðurinn í þáttunum sem hefur einhverja burði til að vera ber að ofan, konum til ánægju, og það er óspart notað og því ætti framkoman að vera við hæfi. Svo Vanessu voru settir úrslitakostir: Láttu mig vernda þig eða... Og Ross var greinilega með bláar linsur. Sem svar við beru brjósti Matts, sennilega.

Jæja, Jón og Egill komu af hjólaæfingu, Egill að verða fullfær, skilst mér. Ég hlakka til að geta farið með honum í hjólatúra niður að sjó á fallegum kvöldum í sumar.

Mér telst svo til að nú geti ég farið kinnroðalaust í háttinn.


Hátíð bleytunnar

 

 

Við fórum semsagt niður á Hafnarbakka og fögnuðum Sjómannadeginum. Það var bara nokkuð gaman, þrátt fyrir úrhellið, og við fórum ekki heim fyrr en var búið að prófa hoppikastala, líta á furðufiska og fara í fallturn og einhverja snúningsgræju og sumar (ég) orðnar blautar í gegnum regngallana.

Svo fórum við heim og Egill fór út á nýja hjólinu sínu með afa.

Nú ert stytt upp og stendur til að kveikja upp í útiarninum og grilla sykurpúða.


10. júní!

Klukkan 4 í dag voru 42 ár frá því að ég skaust í þennan heim. Mér skilst að ég hafi verið mikið af flýta mér þá og enn í dag er mér meinilla við að vera lengi að gera hlutina.

Ég var fyrst á fætur hér á heimilinu í morgun og það út af fyrir sig gerir daginn sérstakan því Kristján hefur hingað til verið kominn fram á undan mér.

Svo skutlaðist ég til að ná í boli handa okkur Margréti og náði í kruðerí í leiðinni. Hlustaði á útvarpið í bílnum og söng hástöfum með "'I'm alive...and the sun shines for me today" og "Celabration".

Kvennahlaupið (les. gangan) var sallafínt. Þar mátti sjá amk 3 steggi, þar af einn sem var mjög flóttalegur á svipinn með stórt skilti sem á stóð "Konur kunna ekki að hlaupa!", og slatta af hundum í grænum bolum.

Seinnipartinn stóð til að kíkja á Hátíð Hafsins og fá sér eitthvað sjávarfang í afmæliskvöldverð en við komum of seint svo við fengum enga humarsúpu og ekki borð á 2 fiskum og enduðum á Thai Crüi og sáum EKKI Bobby Fischer þar. Veit ekki alveg hvernig spilast úr kvöldinu, veðrið er yndislegt og býður upp á labbitúr, í það minnsta.

Hér erum við Margrét, Egill vildi ekki vera með þrátt fyrir nýfengnar grænar vampírutennur.

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband