Er ég virkilega orðin svona gömul?

Ég var að blaða gegnum Fréttablaðið þegar ég sá það: Það er verið að setja diskóið og pönkið á Árbæjarsafn. Á minjasafn. Á stofnun sem hefur það markmið að geyma og sýna minjar um löngu...löngu...löngu liðna tíð. Skyndilega fæ ég gigtarstingi í bakið, sjónin dofnar og þyngdaraflið tekur fastar í mig. Best að ég setji upp heyrnartækin og athugi hvort Donna Summers og Stranglers heyrist ekki í Óskalögum eldri kynslóðarinnar í dag.

Fyrir svona hálfu ári fór Margrét með pabba sínum í Byko og kom auga á músagildru, eina svona sem er eins og búr sem músin festist í og bíður þar örlaga sinna. Margrét linnti ekki látum fyrr en gildran var keypt og hefur geymt hana í bókaskáp hér í stofunni síðan. Hún vissi nefnilega til hvers svona tæki var: "Maður bíður þar til kemur mús og þá setur maður hana í gildruna." Ástæða þess að ég nefni þetta er að sú litla er orðin dálítið gleggri á heiminn. Í morgun bað hún um ostbita í gildruna og situr nú með hana í fanginu, horfir á barnatímann og bíður þess að músin renni á ostlyktina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband