25.10.2006 | 12:11
Svalíhalíla
Ég hélt Vetrarhátíð um síðustu helgi. Hvað get ég haldið upp á næst? Kannski ég reyni bara að halda í mér hátíðagleðinni þar til aðventan hefst. Eftir að ég hætti við að útskrifast sem líffræðingur, get ég nefnilega orðið séð dagsetningar án þess að fá hnút í magann og bara leyft mér að njóta þess hvernig ein árstíð tekur við af annarri.
En það er margt planað fyrir aðventuna, það get ég sagt þér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2006 | 12:27
Æi...
Það er eitthvað svo örþunnur á mér skrápurinn í dag. Fötin stinga mig, það er kalt, ég er þreytt, það er of mikill hávaði. Ég er ekki að veikjast eða neitt slíkt. Þetta er bara þannig dagur.
Ég talaði við vinkonu í gær sem er nýkomin frá Equador og Galapagos-eyjum. Hún lýsti því fyrir mér að í rakanum í regnskóginum hafi hárið á henni lifnað við, krullast og skírst, auk þess sem varirnar á henni urðu bústnari. Nei, ekki af bjúg heldur bara af því allar frumur fengu þann raka sem þær í raun þurfa. Enda var hún þarna á þeim stað sem er talinn, ásamt Afríku, vera vagga mannkyns. Semsagt optimal aðstæður. Hér lægi beint við að segja eitthvað um veðrið hér á skerinu í dag en þess þarf nú eiginlega ekki.
Nú, ég stakk mér að sjálfsögðu beint í aldursreiknivélina sem er gefin upp í Mogga í dag. Við fyrstu, heiðarlegu, útreikningana kom í ljós að ég dey, södd lífdaga, 89 ára að aldri. Þar sem ég hef lengi ætlað mér að verða tíræð, fór ég gegnum þetta aftur og skóf af mér flesta, en ekki alla, ósiðina. Þannig náði ég 96 ára aldri og þá er nú skammt eftir í hundraðið. Stefni á það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.10.2006 | 10:03
Geðvonska
Geðvonska er sjúklegt sjálfseftirlæti. Geðvonskusjúklingarnir sitja og róa sér í fýlunni af sér, sýrugulri og sleipri mannýgi með hlandvolgum pollum af biturleika.
Ég sting upp á að geðvonska verði skilgreind sem röskun á heilbrigðri heilastarfsemi. Hún fellur einhvers staðar mitt á milli fíknar og ranghugmynda. Meðferðin yrði með atferlisaðlögun og án efa væri hægt að koma henni fyrir í 12 spora flórunni. GA, Geðvondir anonymus.
Ég er afturbata geðvonskusjúklingur. Til skamms tíma var ég morgungeðvond og átti það líka til að vera hreinlega geðvond allan daginn, já, tók einstaka túra sem stóðu vikum saman og skildu mig og mína nánustu eftir úrvinda á sál og líkama. Mér líður miklu betur núna. Hef þó dottið í þurrageðvonsku, fundið fýlufjöðrina vindast upp innan í mér með tilheyrandi tilhlökkun yfir að geta sent heiminum það óþvegið.
Ég sá ljósið þegar einn fjölskyldumeðlima minna fór að slá mig út í snakillsku við morgunverðarborðið. Þegar maður sér spegilmynd af sjálfum sér, rorrandi í svartnætti og pirringi, koma sprungur í þá ranghugmynd að þetta sé óumflýjanlegt ástand og geðvonskugrunnurinn hrynur á stuttum tíma. Eftir sit ég með þá uppgötvun að ég hefði aldrei þurft að vera geðvond yfir höfuð.
Ég syrgi þennan glataða tíma glaðværðar og jafnlyndis sem ég hefði getað notið. En reyni að bera höfuðið hátt og setja upp sólgleraugun svo mín bjarta framtíð blindi mig ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2006 | 14:46
Ja men...Herregud!
Hvað er líka verið að reyna að samræma ósamræmanlega hluti með að gerilsneyða ekki framleiðslu sem á að geyma lengi og selja um langan veg? Ef maður vill ógerilsneytt verður maður að reikna með kröftugri bakteríuflóru og reyna því að innbyrða vöruna áður en sýklaherinn hefur fjölgað sér um of.
Vona að þetta fólk muni ná sér.
Lamaðir vegna neyslu gulrótarsafa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt 15.3.2007 kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.10.2006 | 12:58
Hamingja og Pandóra
Ég var lengi að jafna mig eftir þessa síðustu færslu. Það er svona þegar maður lemur hausnum í vegg.
Í gærkvöldi sá ég Happiness. Þegar ég sofnaði var ég flissandi, döpur og sitthvað þar á milli. Ef ég væri listamaður myndi ég vilja að mín verk framkölluðu svona tilfinningar hjá fólki. Stórkostleg mynd en það eru nú fréttir fyrir fæsta aðra en mig þar sem hún er sennilega 10 ára gömul.
Annað fyrirbæri verður mér æ kærara, hún pandora.com. Ella í Skúla kynnti mig fyrir henni. Þetta er tónlistargenamengi, eins og það kynnir sig, og maður getur búið til sínar eigin útvarpsstöðvar. Að vísu má pandora ekki senda út fyrir US en það má nú bjarga því...
Ég er komin með margar stöðvar sem ég get stillt á eftir stuði og tækifæri. Maður gefur upplýsingar um þá tónlist sem maður vill hafa á stöðinni og hún er genagreind og svo er valin sú tónlist sem maður bað um og önnur sem telst lík henni. Svo getur maður gefið "thumbs up/down" og þrengt þannig enn frekar rammann sem valið er með.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2006 | 12:22
Harmleikur - byssueign og ofbeldisdýrkun - geðbilun karla
Ég var að heyra um stúlknamorðin í Lincolnshire í Pennsylvaníu. Litlar Amish-stúlkur teknar af lífi, bundnar og skotnar við skólatöfluna af karlmanni sem hataði konur vegna einhvers sem kom fyrir hann fyrir 20 árum. 5 stúlknannna látnar, nokkrar enn mikið særðar.
Og maður verður svo reiður yfir því að aldrei sé tekið mark á almennri skynsemi, aldrei sé dreginn lærdómur af mistökum og endalaust hlustað á þá sem segja að almenn byssueign valdi ekki aukningu ofbeldisverka, gegndarlausar sýningar á ofbeldi, klámi og kvenfyrirlitningu í sjónvarpi, bíómyndum og tölvuleikjum hafi engin áhrif á unga menn og þeir sem haldi öðru fram séu bara einhverjar kommamussukellingar og kvenkarlar.
Og það grátlega við þessi morð eru að fórnarlömbin eru samfélag sem hefur gert sitt til að vernda börnin sín fyrir einmitt ofanskráðu.
Mér er orða vant.
23.9.2006 | 22:10
Mus musculus
Ég veit ekki hvort þú manst það, en hér fyrr í blogginu skrifaði ég um það þegar Margrét hafði það í gegn að keypt yrði músagildra af því "maður bíður þar til kemur mús og setur hana í gildruna". Þetta var skrifað af ákveðnu yfirlæti mömmunnar sem veit betur. Eða taldi sig gera það.
Við Margrét vorum að koma heim eftir leikskóla á miðvikudaginn. Þegar ég gekk fram hjá baðherberginu sá ég Brand þar inni. Ég gekk áfram til að losa mig við fötin og....spóla til baka. Brandur á baðherberginu?! Gerist ekki. Nema með aðstoð 1-2 fullorðinna, fílefldra manneskja.
Ég leit því aftur inn og sá hvar hann lá í makindum á baðmottunni. Með mús í kjaftinum. Ég skellti hurðinni svo hún kæmist ekki inn í íbúðina og sagði Margréti að fara frá, svipti aftur upp hurðinni og stökk inn. Og öskrandi upp á klósett því Brandur hafði sleppt músinni sem skaust um gólfið. Já, ég skammast mín fyrir þetta. Svo æpti ég til Margrétar að ná í músagildruna og rétta mér. Þegar ég var komin með hana í hendurnar, náði ég músinni og fór sigrihrósandi með hana fram. Svo það er greinilegt að Margrét vissi hvað hún söng þarna um árið. Brandur sat undrandi eftir, hefur sennilega reiknað með að ég ætlaði með hana á diskinn hans.
Mýsla var skoðuð í bak og fyrir, sökuð um að vera rottuungi en eftir leit á netinu kom í ljós að þetta var húsamús. (Veit ekki hvort latínuheitið hér að ofan er rétt en held það.) Hún fékk gráfíkju með smjöri og osti inn í gildruna og var skoðuð meira og ljósmynduð meðan hún brölti yfir matinn sinn og makaði sig alla út.
Svo keyrðum við með hana niður í Ánanaust og slepptum henni þar undir stein. Á leiðinni fékk ég endanlega sönnun þess hvaða dýr þetta væri þegar sterka músarlykt lagði um bílinn.
Til allrar hamingju rættist spá Kristjáns ekki en hún var sú að Brandur kæmi heim daginn eftir með mús í kjaftinum og spyrði: "Má ég fá smjör á þessa líka?"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.9.2006 | 16:28
Mánudagurinn 13?
Þetta er skrifað á bókasafninu. Og af hverju? Jú, af því við Egill erum læst úti, aukalykilinn sem hefur ALLTAF verið á leynistað úti var tekinn inn fyrir nokkru og eini lykilinn á Akureyri og kemur ekki suður fyrr en undir kvöldmat.
Ég ætla bara að sitja hérna, alveg kyrr, þar til ég get sótt lykilinn og þá ætla ég heim og fela mig undir rúmi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2006 | 00:47
Sunnudagurinn 13?
Hvað er að gerast? Já, ég veit að ég braut spegil í fyrradag en komonn!
Dagurinn var fínn framan af. Svo leið að því að ég færi með Egil í pössun til afa og ömmu af því ég ætlaði með Klöru á Pinu Baush í Borgarleikhúsinu klukkan 8. Ég hafði litlar áhyggjur af því þótt drengurinn væri úti, hann var með gemsa um hálsinn. Svo ég hringdi í hann. Og Egill svaraði ekki. Og ég hringdi aftur. Og sendi SMS. Og rétt fyrir sjö fór ég að hringja heim til félaga hans. Enginn hafði séð hann síðustu tímana. Rúmlega sjö fór ég að búa mig undir að semja við föðurinn um að hann kæmi hingað heim og tæki á móti drengnum þegar hann sýndi sig. Þá heyrði ég að strákagengið var komið hér inn í garð svo Egill náðist og var settur inn í bíl. Þegar ég keyrði af stað fann ég að ekki var allt sem skyldi með bílinn og jú...sprungið á afturdekki. Ég hringdi í Klöru og bað hana að koma sér sjálfa í leikhúsið, hringdi í leigubíl og fór með drenginn til afa og ömmu og fékk þar lánaðan bíl til að klára þetta dæmi.
Millikafli: Sýningin var hreint frábær! Tónlistin, dansinn, leikmyndin...allt!
Á leiðinni út úr Borgarleikhúsinu lenti ég í árekstri við konu og missti gersamlega jafnvægið. Ímyndið ykkur að standa í mannþröng og hafa bara pláss fyrir hænuskref aftur á bak og annað áfram. Og lenda svo í árekstri. Til að detta ekki greip ég í kjólinn hjá konunni við hliðina og steig aftur á bak ofan á tána á Klöru. Báðar fyrirgáfu mér en þetta var ferlega vandræðalegt samt. Svo missti ég farsímann upp úr veskinu, í stéttina og lokið datt af honum.
Ferðin heim gekk vandræðalaust, bæði á Hlíðarveg og í Fögrubrekku og svo keyrði Jón okkur Egil heim.
Hér við útidyrnar, meðan ég var að stinga lyklinum í skráargatið, dundaði Egill sér við að sveifla lyklinum sínum í hringi á bandinu og sló kippunni svo illilega í fingurinn á mér að sprakk undan og og fingurinn er blár og bólginn.
Nú er ég að hugsa um að koma mér í rúmið, hafandi deilt þessu með þér, og ljúka þessum degi áður en eitthvað fleira gerist.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.9.2006 | 08:58
Brandó:24
Það var á þriðjudaginn sem við höfðum ýsuna í kvöldmatinn. Það var heilmikill afgangur, nóg til að fæða þurftalitla fjölskyldu á Suðurhveli jarðar í viku eða 2 máltíðir fyrir Brandó. Daginn eftir var kjúklingur í matinn og afgangur af honum líka. Það kvöld var sá loðni farinn að láta á sjá og orðinn gliðsa við átið. Eftir á lagðist hann upp í rúm, á bakið, og horfði stjörfum augum til lofts. Það náðist því miður ekki mynd af því.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)