Geðvonska

Geðvonska er sjúklegt sjálfseftirlæti. Geðvonskusjúklingarnir sitja og róa sér í fýlunni af sér, sýrugulri og sleipri mannýgi með hlandvolgum pollum af biturleika.

Ég sting upp á að geðvonska verði skilgreind sem röskun á heilbrigðri heilastarfsemi. Hún fellur einhvers staðar mitt á milli fíknar og ranghugmynda. Meðferðin yrði með atferlisaðlögun og án efa væri hægt að koma henni fyrir í 12 spora flórunni. GA, Geðvondir anonymus.

Ég er afturbata geðvonskusjúklingur. Til skamms tíma var ég morgungeðvond og átti það líka til að vera hreinlega geðvond allan daginn, já, tók einstaka túra sem stóðu vikum saman og skildu mig og mína nánustu eftir úrvinda á sál og líkama. Mér líður miklu betur núna. Hef þó dottið í þurrageðvonsku, fundið fýlufjöðrina vindast upp innan í mér með tilheyrandi tilhlökkun yfir að geta sent heiminum það óþvegið.

Ég sá ljósið þegar einn fjölskyldumeðlima minna fór að slá mig út í snakillsku við morgunverðarborðið. Þegar maður sér spegilmynd af sjálfum sér, rorrandi í svartnætti og pirringi, koma sprungur í þá ranghugmynd að þetta sé óumflýjanlegt ástand og geðvonskugrunnurinn hrynur á stuttum tíma. Eftir sit ég með þá uppgötvun að ég hefði aldrei þurft að vera geðvond yfir höfuð.

Ég syrgi þennan glataða tíma glaðværðar og jafnlyndis sem ég hefði getað notið. En reyni að bera höfuðið hátt og setja upp sólgleraugun svo mín bjarta framtíð blindi mig ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband