7.1.2007 | 11:25
Ahhhhh, sunnudagsmorgnar
Þetta er skrifað í rúminu undir hádegi. Margrét (og reyndar Kristján líka?) eru að horfa á Barbiemynd, Egill að koma sér til að klára margföldunartöflu sem hann lofaði afa sínum og ég búin að lesa öll pappírsblöð og netblöð sem mér hafa dottið í hug. Þvílík sæla.
Enda er ég að fyllast eldmóði og kaffi og farin að skipuleggja tiltekt í geymslunni samhliða frágangi jólaskrautsins. Svo er löngu tímabært að Egill fái skrifborðið sitt upp. Ég kvíði bara svo mikið fyrir að setja það saman, þetta er IKEA borð og leiðbeiningarnar löngu týndar.
Ég lofaði sjálfri mér í gær að taka nú myndavélina með mér hvert sem ég fer. Það loforð var gefið á Þingvöllum í labbitúr með Öddu. Ætli Þingvellir séu fallegasti staður á Íslandi? Það er sama hvenær ársins ég kem þangað, ég fell alltaf í stafi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2006 | 20:34
Síðasta blogg ársins
Nú er Þóra komin heim svo ég geymi þetta blogg bara, nema tjáningarþörfin beri mig ofurliði.
Ég er búin að vera hundveik, með hita og hálsbólgu, síðan á sunnudaginn. Var samt að vinna til miðnættis í gær en búin að vera í rúminu í dag. Mér fer hægt fram og kemst kannski á lappir á morgun en verð samt greinilega ekki til neinna stórræða fyrr en seinna í vikunni.
Annars er skapið bara gott, allt að verða svo jólalegt, bæði leikskólinn og skólinn að sleppa sér í undirbúningi, Stekkjastaur kom með þau fallegustu epli sem sést hafa og þau voru étin upp til agna. Gengur bara á með smákökubakstri, jólagjafakaupum og skemmtilegheitum yfir höfuð. Veit ekki hvað ég geri með jólatréð í ár, reyni sennilega að fá það hjá skógrækt Mosfellsbæjar eins og síðustu ár. Fer í það um helgina.
Svo á að reyna að vera í fríi milli jóla og nýárs.
En skipti nú semsagt yfir í órafræn samskipti.
Myndin náðist hér úti í garði í nótt, gæti verið Giljagaur.
Bless í bili.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2006 | 21:09
Þá er næsta vika á hreinu
Margrét er með hlaupabólu. Líður bara alveg prýðilega, takk fyrir, en útsteypt á baki og bringu. Kristján á vakt til fimm næstu viku og ég mest heima með Margréti þann tíma. Fyrir vikið eigum við deit á þriðjudaginn, Þóra, og við í hádeginu á mánudaginn, vona ég Adda, þ. e. ef þú hefur geð í þér til að borða innan um hlaupabólurnar.
Annars hreinlega ekkert að frétta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2006 | 21:26
Hierónýmus og sjálfspíslirnar
Ég er að lesa "Hugleiðingar um þýðingar" eftir Jóhönnu heitna Þráinsdóttur. Ásamt mörgu öðru skemmtilegu kemur þar fram að tveir fornir Biblíuþýðendur, Ágústínus af Hippo og Hierónýmus, deildu hart um hvaða plöntu Drottinn hefði látið spretta yfir Jónasi eftir dvöl hans í hvalnum. Hierónýmus sagði það hafa verið bergfléttu en Ágústínus grasker. Síðari tíma fræðimenn hafa komist að því að báðir höfðu rangt fyrir sér, þetta mun hafa verið laxerolíutré, einnig nefnt Kristspálmi á íslensku. Svo heldur hún áfram og segir þá báða hafa verið tekna í dýrlingatölu þótt Hierónýmus hafi lengi verið talin full vafasamur pappír til slíkrar upphafningar, verandi bæði geðríkur og óbilgjarn í garð andstæðinga. Hins vegar bjargaði honum dálæti hans á sjálfspíslum, enda varð hann verndardýrlingur þýðenda.
Nú, ég leitaði karlsins dálítið og komst að því að hann ber líka nafnið Jerome og er sá sem dró þyrninn úr loppu ljónsins og öðlaðist þannig óbilandi hollustu þess.
Auk þess að vera svona hrifinn af sjálfspíslum, kjaftfor og óbilgjarn, virðist hann sem sagt hafa verið fífldjarfur og þar sem han eyddi 30 árum í þýðingu sína á Vúlgötu, líka lygilega þrjóskur. Skal því engan undra að hann sé verndardýrlingur stéttar minnar. En ekki bara hennar, heldur líka fornleifafræðinga, skjalavarða, Biblíufræðinga, bóksafnsvarða og námsfólks.
Já, við erum töff lið.
Allt er þetta inngangurinn að því að ég á að vera að þýða, af óbilgirni, þrjósku og ást á sjálfspíslum, næstsíðasta þáttinn í skelfilegu, amerísku löggutugguþáttaröðinni. Í þessum þætti mætir FBI CIA svo allir sem hafa gaman af speglagleraugum og svörtum jakkafötum og hafa engan húmor, geta glaðst ógurlega.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2006 | 22:22
Hmmmmm....
Var svo sem ekki búin að nefna það en ég hef tvisvar fundið löng, dökkbrún hár í sturtunni. Kristján sver og sárt við leggur að hann hafi ekki farið með neinum í sturtu sem er með sítt, brúnt hár og ég hætti bara að hugsa um málið. Þar til í kvöld. Þegar birtist stór flóki af dökkbrúnu hári á stofugólfinu.
Þetta er ekki mannshár en samt ekki plasthár. Þetta er af...einhverju. Og svo er skrítin lykt af flókanum. Dálítið dýrsleg. Krakkarnir vissu ekkert um málið og Brandur vildi ekki tjá sig frekar en fyrri daginn. Vonandi er hann ekki farinn að veiða svartálfa eða einhver önnur fyrirbæri. Og hvað með sturtuna? Það er mánuður eða meira síðan hárin fundust í henni og þá var Grýla örugglega ekki vöknuð þótt hún gæti vissulega verið komin á stjá núna.
Hrollvekjandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.11.2006 | 14:28
Innrás kroppaþjófanna
Já, ég veit. Þetta er ferlega slöpp þýðing. En ástæða titilsins er að ég held að það hafi einhver önnur en ég vaknað í bólinu mínu í morgun. Einhver sem vildi allt í einu morgunkaffið sitt svart og kom svo ekki tannþræðinum milli tanna sem hefur hingað til verið gjá á milli. Frekar vírað.
En það var ekki skipt um hversdaginn minn. Bara sama vinnan og heimilisstússið. Kristján og Margrét fara norður á morgun og það stóð til að nota helgina til þrifa en svo barst mér óvænt heilmikil vinna sem ég ætla að klára af í staðinn. Fínt, þetta verður feitur desember. Kannski svo feitur að ég geti ráðið fólk í þrifin hérna. Það væri eina vitið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2006 | 15:08
Laufabrauð 2006
Snorri og Soffía tóku á móti klaninu síðasta sunnudagskvöld og það var skorið eftir kúnstarinnar reglum og líka eftir alveg glænýjum reglum. Hafa ekki sést jafn margar flottar kökur fyrr þótt jólastemningin hafi ekki alltaf verið til staðar. Ég vísa þar í Ghostbusters, orkídeumynstrið, kókflöskur og töluvert af prófílum af óþekktu fólki. Auk þess sáust aftur í ár fléttur af ýmsum gerðum.
Eins og sjá má af meðfylgjandi myndum, og fyrirsjáanlegt var, fer yngri kynslóðinni stöðugt fram að fríðleik og atgervi. Hitt kom meira á óvart að eldri ættarlaukar blómstra líka sem aldrei fyrr og raunar orðið erfitt að ímynda sér hvernig þetta endar eiginlega.
Mínar myndir heppnuðust ekki sem skyldi, fyrir utan portrett af Snorra sem ég er að hugsa um að stækka upp í meter x meter og setja á stofuvegginn hjá mér. Þó set ég slatta inn á flickr svæðið mitt og bið þig nú að smella á eftirfarandi slóð: http://flickr.com/photos/44578085@N00/
Elsku Snorri og Soffía, hjartans þakkir og ég vona að steikarbrælan sé farin út og flækingslæðan hætt að að ásækja ykkur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2006 | 21:48
Eymingja Arnaldur
Ég fór altso og sá Mýrina í dag.
Mikil lífsreynsla. Er ekki frá því að það verði litið á þetta sem tímamótamynd, fyrstu erkiíslensku myndina. Ég var svo sem búin að heyra þetta utan af mér, fór á fyrirlestur fyrir nokkru þar sem myndin var rifin niður vegna klisjanna sem í henni eru og las svo dóm um sama. En ég er jákvæð manneskja og Baltasar og Arnaldur mínir menn svo ég fór glöð í bragði. Brá fyrst þegar kunnugleg myndskeið fóru að hrannast upp en svo var þetta bara orðið fyndið og maður lagði sig fram um að taka eftir minnunum úr öllum íslenskum myndum sem ég hef séð:
Mosagróið hraun, loftmynd tekin lágt yfir það og á töluverðurm hraða. (Eins og byrjunarsena Arnarins) Til staðar.
Ditto loftmynd af vegi gegnum hraun og bíll sem keyrir eftir honum. Til staðar.
Eyðileg strandlengja og hrörlegt hús með brimið í baksýn. Til staðar.
Karlakór. Til staðar og ekki sparaður.
Skeggjaðir sérvitringar. Til staðar.
Óþrifalegir sérvitringar. Til staðar.
Landsþekktir smákrimmar. Til staðar.
Loftmyndir yfir Reykjavík að vetrarlagi, komplett með Hallgrímskirkju og Esjunni. Til staðar.
Jarðhiti og virkjanamannvirki. Til staðar.
Lopapeysa. Til staðar.
Svið. Til staðar.
Kjötsúpa. Til staðar.
Það held ég.
En leikararnir stóðu sig allir frábærlega og alltaf skein í gegn þessi magnaði söguþráður, einhver sá besti sem ég hef lesið lengi, lengi, lengi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.11.2006 | 09:48
Upprennandi söngfólk
Má til að benda þér á þessa frétt, enda Mían mín í stóru hlutverki þar.
http://mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1235562
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2006 | 16:02
Páfinn bannar skotthúfur og skautbúning
Vatíkanið gaf í dag út kardínálabréf um að peysuföt og faldar yrðu ekki vel séð klæði utan Íslands hér eftir.
Talsmaður Vatíkansins sagði að: "...gestir ættu að fylgja lögum þeirra þjóða sem þær heimsæktu."
http://english.aljazeera.net/NR/exeres/EB7ED09D-3527-4E8E-BEFE-3D1AB707EE22.htm
Nei, auðvitað er þessu ekki saman að jafna, ég veit það. Ég sting þessu bara hérna inn af því mér finnst athyglivert að þessi áhrifamikla stofnun sé enn í gegndarlausum hernaði við heiðingjana. Sem, vel að merkja, sjá eflaust lítið athugavert við að kaþólskar nunnur gangi um þeirra lönd í sínum búningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)