Hierónýmus og sjálfspíslirnar

c_documents_and_settings_framnesvegur_my_documents_my_pictures_hieronymus_me_geislabaug.jpg

Ég er að lesa "Hugleiðingar um þýðingar" eftir Jóhönnu heitna Þráinsdóttur. Ásamt mörgu öðru skemmtilegu kemur þar fram að tveir fornir Biblíuþýðendur, Ágústínus af Hippo og Hierónýmus, deildu hart um hvaða plöntu Drottinn hefði látið spretta yfir Jónasi eftir dvöl hans í hvalnum. Hierónýmus sagði það hafa verið bergfléttu en Ágústínus grasker. Síðari tíma fræðimenn hafa komist að því að báðir höfðu rangt fyrir sér, þetta mun hafa verið laxerolíutré, einnig nefnt Kristspálmi á íslensku. Svo heldur hún áfram og segir þá báða hafa verið tekna í dýrlingatölu þótt Hierónýmus hafi lengi verið talin full vafasamur pappír til slíkrar upphafningar, verandi bæði geðríkur og óbilgjarn í garð andstæðinga. Hins vegar bjargaði honum dálæti hans á sjálfspíslum, enda varð hann verndardýrlingur þýðenda.

Nú, ég leitaði karlsins dálítið og komst að því að hann ber líka nafnið Jerome og er sá sem dró þyrninn úr loppu ljónsins og öðlaðist þannig óbilandi hollustu þess.

Auk þess að vera svona hrifinn af sjálfspíslum, kjaftfor og óbilgjarn, virðist hann sem sagt hafa verið fífldjarfur og þar sem han eyddi 30 árum í þýðingu sína á Vúlgötu, líka lygilega þrjóskur. Skal því engan undra að hann sé verndardýrlingur stéttar minnar. En ekki bara hennar, heldur líka fornleifafræðinga, skjalavarða, Biblíufræðinga, bóksafnsvarða og námsfólks.

Já, við erum töff lið.

Allt er þetta inngangurinn að því að ég á að vera að þýða, af óbilgirni, þrjósku og ást á sjálfspíslum, næstsíðasta þáttinn í skelfilegu, amerísku löggutugguþáttaröðinni. Í þessum þætti mætir FBI CIA svo allir sem hafa gaman af speglagleraugum og svörtum jakkafötum og hafa engan húmor, geta glaðst ógurlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband