Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2006

Gullinbrúnn, húðin sem sól...

Ég held að mín miðlífskreppa hafi amk eina mjög jákvæða birtingarmmynd. Hún er sú að ég er að enduruppgötva tónlistina sem ég hafði svo gaman af í den. Nýji Supertrampdiskurinn, Janis Joplin og Stranglers eru ofarlega á listanum þessa dagana. Það líður varla sá dagur að ég sé ekki í gríðarlegum fíling að syngja og dansa með góða tónlist í eyrunum. Ég er nýbúin að kaupa safndisk með Stranglers, Peaches, og á honum er eilíft uppáhaldslag mitt "Golden Brown". Það er magnað, bæði lagið og textinn, og sendir mig milliliðalaust aftur í skemmtilega fortíð.

Í dag fengum við ljúfa heimsókn frá litlum frænda frá Akureyri. Hann féll ágætlega inn í krakkahópinn sem háði hroðalegan galdrabardaga í garðinum svo við gullu særingar og stýribölvanir daglangt. Ég er ekki frá því kötturinn sé hálftætingslegur eftir þetta, hefur sennilega lent í fleiri en einni lömunarsendingu. Ég notaði tækifærið til að þrífa og fór með jöfnu millibili út í glugga: "Hver átti að tilkynna sig heim klukkan 4?" "Átti ekki einhver að fara heim klukkan 5?". Eitt hlutverk mömmunnar í dag ef nefnilega að fylgjast með klukkunni fyrir liðið og lána farsímann sinn til að gormarnir geti hringt heim og samið um að vera "bara pínu lengur, ég er Harry núna og hann stjórnar."

Litla manneskjan fékk líka að blómstra og fara í mömmó með einn enn minni nágranna sem lét sæmilega að stjórn og þurfti hjálp með rennilása og fleira.


Nauðsynleg slóð

Þessa kíki ég á nokkrum sinnum á mánuði, bara svona til að setja líf mitt í samhengi. Hún er uppfærð á einhverra mínútna fresti.

http://www.fourmilab.ch/cgi-bin/uncgi/Earth?imgsize=1024&opt=-l&lat=49.3333&ns=North&lon=22.9167&ew=West&alt=35785&img=learth.evif


Blessaður Borgarfjörðurinn

Ég er að leggja síðustu hönd á niðurpakkelsið fyrir nótt í sumarbústaðnum hennar systur minnar. Þetta er frekar einfalt mál, náttföt og tannburstar og svo alklæðnaður fyrir stærri gorminn sem telur ferðina ekki velheppnaða nema hann detti amk einu sinni í skurð eða bara Norðurá.

Þetta verður yndislegt, húsið sjálft er heilt ævintýri og svo bætist við umhverfið og síðast en ekki síst góður félagsskapur.

Vorfiðringurinn, sem hefur verið minnst á hér fyrr, er nú aftur að heltaka mig og hér heima er öllu sáð sem hugsanlega gæti spírað. Því er borðstofuglugginn nú fullur af örlitlum eplatrjám, basiliku og paprikuplöntu sem skartar einni stórri og þremur litlum paprikum og von á fleiri. Svo gekk ég frá breytingum á garðinum við grönnu mína hér á neðri hæðinni svo ég get byrjað að moldvarpast strax í næstu viku ef veður leyfir.

Ahhhh...la vita e belle.


Afgangar eru æðislegir

Mikið déskoti var mikið um góðan mat þessa páskana. Ég held ég hafi náð að borða svo að segja stanslaust frá hádegi og fram til klukkan 10 í gær. Langaði alltaf í meira. Þegar ég stóð frammi fyrir allri matargerðinni, hún hófst á laugardagsmorgninum með maríneringu og lokapunkturinn var sósan á lærið undir kl 1 á páskadag, féllust mér nánast hendur og er ég þó mikill matreiðslusukkari. Ég ákvað í hljóði að næstu páska myndu eggin vera látin duga, restin yrði svo bara Cheerios.

En þegar upp var staðið, með erfiðismunum, höfðu allir borðað mátulega mikið af afskaplega góðum mat og það sem best var: Það eru til ljúffengir afgangar sem endast út vikuna. Ég er týpan sem á nóg af plastílátum og á góðum stundum er ísskápurinn minn lítið himnaríki aðgengilegra leifa. Mér finnst meira að segja betra að borða flesta kjötrétti kalda en heita, nema hugsanlega nautasteikur.

 Þetta á sér rætur í bernsku minni þegar fjölskyldan hittist við ísskápinn að kvöldi dags, malaði yfir köldu Balbóspaghettí og búnar voru til ævintýralegar samlokur með því sem til var. Dettur oft í hug í dag hvernig pabbi og mamma fóru að því að eiga fyrir og elda mat ofan í fjóra botnlausa unglinga og eina þybbna smástelpu.

Maðurinn minn er enda alveg hættur að gera þau mistök að henda matarafgöngum og ég er auðmjúklega beðin leyfis ef til stendur að henda svo mikið sem tveimur grænum baunum.

Kattardiskurinn er samt enn ásteytingarsteinn og ég er stranglega atyrt fyrir að setja ólíklegustu hluti á hann og ætlast til að Brandur geri sér þá að góðu. Meðeigandi hans segir að dýrið líði fyrir þessa áráttu mína, enda sé kötturinn sérlega kurteis og ljúfur og viti ekki hvernig hann eigi að koma mér í skilning um að diskarnir hans séu eingöngu ætlaðir fyrir þurran Whiskas mat. Ég segi aftur á móti að almennilegir kettir eigi að rífa í sig fisk og kjöt, jafnvel pasta ef svo ber undir. Ég verð samt að viðurkenna að yfirleitt steinrenna þessir bitar óétnir og kötturinn kvartar við umboðsmann sinn sem skefur diskana hans bölvandi og fyllir þá af geldu, verksmiðjuframleiddu óæti.

En aðalatriðið í þessari færslu er að næstu páska verður ekki dregið úr matartilbúningi, nei, þá byrja ég á föstudaginn langa og verð búin að fá mér amerískan ísskáp til að rúma allt góðgætið mitt í plastboxunum.


Star Wars strákurinn

Haldið þið ekki að strákurinn hafi samið um bætur við kvalarana sem láku myndbandinu á netið! Hann virðist hafa fengið um það bil 350.000 dollara bætur. Ekki finnst mér það nú mikið. Hann verður eflaust þekktur sem Star Wars strákurinn það sem eftir er, ómögulegt að taka hann nokkru sinni alvarlega. Annars er þetta slóðin að greininni fyrir áhugsama: http://www.theglobeandmail.com/servlet/story/LAC.20060407.STARWARS07/TPStory/National

Ég skrapp út og skokkaði í kuldanum í gærmorgun og varð að sjálfsögðu strax svo kvefuð að hausinn á mér er að springja. Gáfulegt. 


Bætiefnakynslóðin

Datt í hug í morgun þegar ég var að dæla í mig daglegum skammti af lýsi-kalki-sólhatti-járni hvort þessi x-kynslóð mín sem ekki virðist hægt að kenna við neitt, sé kannski bara bætiefnakynslóðin. Þau sem opnuðu hjarta sitt fyrir eróbikk, ljósum og vaxtarrækt, urðu vitni að uppgangi heilsubúðanna og umfram allt, könnuðu með meltingarveginum ný og spennandi bætiefni sem engum, utan Kaliforníu, hafði hingað til dottið í hug að setja ofan í sig. Við verðum örugglega óskaplega vel varðveitt gamalmenni, nema þau sem þjást af áður óþekktum bætiefnaeitrunum eða hafa látist fyrir aldur fram af húðkrabba.


Niður með frumlegheit!

Nú er ég búin með Skugga vindsins. Dásamlegt, ég datt alveg í hana, lagði hana eins lítið frá mér og ég gat, en það tók samt sinn tíma þar sem hún er rúmar 500 blaðsíður.

Eftir því sem lengra leið á lesturinn, fannst mér ég meira vera komin í eitthvað náskylt Leiðarljósi, bara betur skrifað og lausara við endurtekningar. Og með meiri vísun í raunveruleikann. Því þetta er róman, fullkomið dæmi um tegundina. Það eru leyndarmál og syndir í fortíðinni, ástir fríðra ungmenna sem mega ekki eigast, stríð og blóðsúthellingar og fyndnar aukapersónur. Og hvað með það? Jú, það eru náttúrulega gömul sannindi að sögurnar séu örfáar, bara sagðar aftur og aftur í nýjum búningi. Einhverra hluta vegna er eins og bestu búningarnir séu flestir á spænska tungu, kannski af því spænskan er dramatísk í eðli sínu. Hlustið bara á beina fótboltaútsendingu á spænsku og þá skiljið þið mig.

Svo komst ég að því að mín innri rokkgella er

You Are Sheryl Crow!
Down to earth with tons of creative energy
When you talk, everyone can relate to you
"Life springs eternal
On a gaudy neon street
Not that I care at all"


Framnesvegurinn glóir líka

Ef það er ekki beinlínis aprílgabb þá hefur verið kveikt í bíl hér á Framnesveginum í nótt. Að sjálfsögðu varð enginn á þessu heimili var við það frekar en þá jarðskjálfta og innbrot sem hér hafa yfir dunið. Við höfum víst svona góða samvisku. Mér finnst þetta dálítið óhuggulegt, verður hugsað til Parísar og svona.

En þetta er skelfilegt með Mýrarnar. Hugsa sér að eiga sígarettuna sem kveikti eldinn. Eða hvað það nú var. Ég hef ekki verið sátt við sinubruna frá því ég fór að læra plöntulíffræði. Finnst þetta ein birtingarmynd þessarar sífelldu mismununar grasa yfir annan gróður. Sem er náttúrulega undirstaða drottnunar sauðkindarinnar yfir íslenskum gróðri nema rétt þar sem skjáturnar hreinlega komast ekki að honum.

En talandi um aprílgabb, ég hef ekki séð neitt enn og ekkert hlaupið enn. Er aprílgabbið ekki í einhverri lægð þessi síðustu ár? Kannski erum við orðin svo spéhrædd og móðgunargjörn að við tökum ekki sénsinn á að láta lítillækka okkur. Ég held að aprílgabbið sé upprunnið úr kjötkveðjufagnaði fyrri alda þegar almenningur fékk örfáa daga á ári til að gera grín að aðalnum. Þá var vinsælt að klæða þorpsfíflið í konungsskrúða og láta það leiða skrúðgöngu álíka hirðmanna. Heitir aftignun, á fínu máli og er nátengt hugtakinu gróteska sem var svo vinsælt í allri menningarumræðu hér fyrir svona 10 árum.

Gróteskan í aprílgabbi landans felst aðallega í að láta okkur hlaupa eftir gylliboðum um hræbillega bíla eða útigrill eða loforðum um furðulegar sýningar. Semsagt að fá og horfa. Já, meira að segja aprílgöbbin eru ekki næstum góð og í gamla daga. Mitt uppáhald er þegar Bylgjan sló upp stórfrétt um að MacDonalds ætlaði að stefna Kópavogskirkju fyrir ólöglega notkun á lógói fyrirtækisins. Það var rætt við prestinn sem viðurkenndi að hann hefðu sótt heim alvarlegir menn í dökkum fötum með stresstöskur og heimtað að útlitil kirkjunnar yrði breytt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband