Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Allt í pati

Það er einhvern veginn allt að losna úr böndunum þessa dagana. Vesturbæjarskóla að ljúka og Egill sér frelsið í hillingum, ég flutt úr Skúla en ekki búin að fá inni í R.akademíunni svo vinnuaðstaðan mín er í bútum og kössum hér heima, Kristján að fara að vinna eftir mánaðarfrí svo ekki heldur hann utan um heimilið mikið lengur og til að kóróna allt ákváðum við að fara í herbergjaskák og henni lauk svo að Margrét er í borðstofunni, Egill í hennar herbergi, hans herbergi orðið skrifstofa og borðstofuborðið komið fram í stofu.

Margréti líst ekki alveg á þetta og Brandur beinlínis grætur af því efri kojan hans Egils er orðin að venjulegu rúmi niður við gólf. Ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að svona verði þetta í sumar, veit ekki af hverju.


Magi Reykjavíkur

Fyrir nokkru las ég pistil, eftir karlmann sem ég man ekki nafnið á og í riti sem ég man ekkert um heldur. Það sem er mér minnisstætt er að þar fann ég einhvern annan en mig sem langaði til að fá matarmarkað í Reykjavík. Hann gaf honum heitið "Magi Reykjavíkur".

 Ég hef látið mig dreyma um íslenskan matarmarkað frá því ég bjó á Spáni. Þar væri hægt að fá allan matinn sem fylgir hverri árstíð hér og í löndunum í kring:

Á vorin rauðmaga, hrogn og bjargfuglaegg. Kindakjöt úr vorslátrun.

Sumrin færðu okkur blóðberg, hvönn og annað gott krydd, rabarbara, hundasúrublöð í salöt og stilkana í súpu, fíflamarmelaði og fíflavín, söl og skelfisk, lax og silung, bæði nýjan og reyktan. Kannski jarðarber frá Norðurlöndunum.

Seinni hluta sumars og fram á haust væri gnótt uppskeru: Kartöflur, gulrætur, rófur og kál, lyngber og runnaber og afurðir úr þeim; sultur og vín. Kjötsúpuvagnar sem seldu ilmandi súpu úr nýslátruðu til að taka með heim eða borða á staðnum. Epli, perur, tómatar, laukar og fleiri ávextir og grænmeti utan úr heimi, sem væri tínt þroskað en ekki látið þroskast í ethylene-mekki í gámum á leiðinni til landsins eða ræktað hér langt fyrir norðan útbreiðslumörk undir gleri.

Veturinn færði okkur viðskiptavinum markaðsins svo villibráð og afurðir úr henni.

Allan ársins hring gæti maður gengið að góðum ostum vísum þar, bæði ær- og kúaostum. Kindabændur slátra nú allan ársins hring, kannski væri hægt að fá bragðmeiri kjúkling sem hefði nærst á öðru en eigin úrgangi og fengið að viðra sig, jafnvel hænuegg af sama stað. Fisksalinn stæði auðvitað keikur með allt sem smábátaeigendur fengu hér úti á Faxaflóa daginn áður og vínsalinn byði upp á allskyns vín og brennivín bragðbætt með einkennisjurt hverrar sýslu.

Hvernig væri að sameina matarhluta Kolaportsins og sveitamarkaðina á höfuðborgarsvæðinu, auk annarra svipaðra, undir einu, stóru þaki í nýja skipulaginu við Reykjavíkurhöfn?

Ég myndi kaupa þar inn á hverjum degi.


Brown-bagging vs einkaleyfi

Erfðabreytingar á lífverum hafa verið stundaðar frá því menn fóru að stunda landbúnað. Það er í sjálfu sér enginn munur á erfðabætum með ræktum og því að skjóta inn ákveðnum genum með einhverjum genaferjum. Síðarnefndu breytingarnar ganga yfirleitt til baka á nokkrum kynslóðum og hafa litla möguleika á að lifa af í náttúrunni. Samt er alltaf sú hætta fyrir hendi að ofurplöntur nái að dreifa sér og jafnvel útrýma innlendum lífverum sem fyrir eru á svæðinu. Það hefur í för með sér minnkun á líffræðilegri fjölbreytni og það fyrirbæri er lífheiminum óbætanlegt. Það er ekki hægt að búa til erfðamengi sem hafa dáið út. Eftir því sem erfðamengjum fækkar, sama hvaða lífverum þær tilheyra, verður lífríkið viðkvæmara fyrir breytingum. Ef ekki eru til neinar lífverur sem pluma sig betur í kulda en hita er enginn til að lifa af næstu ísöld, svo mjög einfaldað dæmi sé tekið.

Í miðvesturríkjum Bandaríkjanna er það kallað brown-bagging þegar bændurnir taka frá hluta af uppskerunni til að sá að ári. Ósköp venjulegir og ævafornir búskaparhættir. En síðustu ár hafa lygilegir hlutir verið að gerast þarna fyrir vestan. Bandaríkjamenn eru frumkvöðlar og miklir áhugamenn um erfðabreyttar plöntur. Þeir hafa bændurna yfirleitt með sér þar sem breytingarnir gefa af sér plöntur sem standast betur illgresiseyði og gefa meiri uppskeru. Auk þess hafa erfðatæknifyrirtækin drauma um að framleiða plöntur sem væri hægt að nota sem óteljandi, litlar efnaverksmiðjur og það gæti orðið mannkyni öllu til góðs.

Frá árinu 1980 hafa líftæknifyrirtæki geta fengið einkaleyfi á lífverunum sem þau búa til. Það eitt er nógu erfitt að réttlæta siðferðilega en frá árinu 2001 ná þessi einkaleyfi yfir alla afkomendur lífveranna. Já, líka fræin sem fjúka með veðri eða berast með dýrum yfir á næstu landareign. Þar gæti búið bóndi sem hefur þann gamla sið að halda eftir hluta af uppskerunni til næstu sáningar. En það getur hann ekki lengur, þá lendir hann bara í lögsókn fyrir brot á lögum um einkaleyfi þar einhver hluti kornsins sem hann heldur eftir gæti hafa komið af einstaklingi sem óx af fræi sem erfðatæknifyrirtækið á.

Með öðrum orðum, það er búið að skylda bændur til að kaupa nýtt útsæði á hverju vori. Til að gera þetta enn gerræðislegra hefur verið stofnuð "consumer support" lína hjá að minnsta kosti einu þessara fyrirtækja sem er í raun svona uppljóstrunarsími þar sem fólk getur komið upp um nágrannann sem er að "brown-bagga" í ár.

 


Dæs...

Það gerast stundum dálítið undarlegir hlutir í barnaherbergjunum á Framnesinu. Myndin hér að ofan er til marks um húmorinn hjá syninum á heimilinu. Það er líka hann sem benti á slóðina hér að neðan.

http://www2.warnerbros.com/web/cartoon/home.jsp

Ég fann aftur á móti þessa sem er full "noir" fyrir Egil.

http://www.makingfiends.com/ 

Góða skemmtun.


Skvítabjörn

 

The grizzly-polar bear hybrid.

  

Rakst á fréttir á Wikipediu um að fyrsti blendingur skógarbjörns og hvítabjörns hefði verið skotinn 26. apríl í Kanada. Vitað er að tegundirnar geta æxlast og jafnvel átt frjó afkvæmi en sönnun hefur ekki fundist fyrr en nú.

Kanadískir fjölmiðlar hafa svo verið að leika sér með nafngiftir: Grizzapole, pizzly, grolar, pozzly og nunalak (sem er blanda úr inúítamáli).

Samt verður latínunafnið enn flottara: Ursus maritimus horribilis.

Hér er svo slóðin, ég stal myndinni þaðan:

http://en.wikipedia.org/wiki/Grizzly-polar_bear_hybrid

 


Afmæli Margrétar

7 mai 2006 img 0006.jpg

Nú er Margrét orðin 4 ára. Hún fékk aldeilis fínan dag, sólríkan og hlýjan og gjafirnar...maður!

Það var hestvagn með hesti, kúsk og allskyns landbúnaðarafurðum, hjólahjálmur á Babyborn, tveir hundar með skál sem má þvo um munninn (?), aðrir tveir ásamt þjálfurum sínum sem eru hluti af leitarsveit, boli, peysu, pils og sokkabuxur, nærbuxur í bunkum, Memory spil, Barbí á hesti með alles, dótakistil, hundaþvottapoka og eflaust eitthvað sem fór framhjá mér í æðibununni.

Svo kom fullt af góðum gestum: Snorri, Soffía og Ronja, Helga, Hrefna og Birna, Halla, Ragnar, Rán og Stefanía, Gísli, Maddy og Oddný. Dásamlegt. Myndirnar tala sínu máli.

Bestu þakkir, öll sömul.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband