Brown-bagging vs einkaleyfi

Erfðabreytingar á lífverum hafa verið stundaðar frá því menn fóru að stunda landbúnað. Það er í sjálfu sér enginn munur á erfðabætum með ræktum og því að skjóta inn ákveðnum genum með einhverjum genaferjum. Síðarnefndu breytingarnar ganga yfirleitt til baka á nokkrum kynslóðum og hafa litla möguleika á að lifa af í náttúrunni. Samt er alltaf sú hætta fyrir hendi að ofurplöntur nái að dreifa sér og jafnvel útrýma innlendum lífverum sem fyrir eru á svæðinu. Það hefur í för með sér minnkun á líffræðilegri fjölbreytni og það fyrirbæri er lífheiminum óbætanlegt. Það er ekki hægt að búa til erfðamengi sem hafa dáið út. Eftir því sem erfðamengjum fækkar, sama hvaða lífverum þær tilheyra, verður lífríkið viðkvæmara fyrir breytingum. Ef ekki eru til neinar lífverur sem pluma sig betur í kulda en hita er enginn til að lifa af næstu ísöld, svo mjög einfaldað dæmi sé tekið.

Í miðvesturríkjum Bandaríkjanna er það kallað brown-bagging þegar bændurnir taka frá hluta af uppskerunni til að sá að ári. Ósköp venjulegir og ævafornir búskaparhættir. En síðustu ár hafa lygilegir hlutir verið að gerast þarna fyrir vestan. Bandaríkjamenn eru frumkvöðlar og miklir áhugamenn um erfðabreyttar plöntur. Þeir hafa bændurna yfirleitt með sér þar sem breytingarnir gefa af sér plöntur sem standast betur illgresiseyði og gefa meiri uppskeru. Auk þess hafa erfðatæknifyrirtækin drauma um að framleiða plöntur sem væri hægt að nota sem óteljandi, litlar efnaverksmiðjur og það gæti orðið mannkyni öllu til góðs.

Frá árinu 1980 hafa líftæknifyrirtæki geta fengið einkaleyfi á lífverunum sem þau búa til. Það eitt er nógu erfitt að réttlæta siðferðilega en frá árinu 2001 ná þessi einkaleyfi yfir alla afkomendur lífveranna. Já, líka fræin sem fjúka með veðri eða berast með dýrum yfir á næstu landareign. Þar gæti búið bóndi sem hefur þann gamla sið að halda eftir hluta af uppskerunni til næstu sáningar. En það getur hann ekki lengur, þá lendir hann bara í lögsókn fyrir brot á lögum um einkaleyfi þar einhver hluti kornsins sem hann heldur eftir gæti hafa komið af einstaklingi sem óx af fræi sem erfðatæknifyrirtækið á.

Með öðrum orðum, það er búið að skylda bændur til að kaupa nýtt útsæði á hverju vori. Til að gera þetta enn gerræðislegra hefur verið stofnuð "consumer support" lína hjá að minnsta kosti einu þessara fyrirtækja sem er í raun svona uppljóstrunarsími þar sem fólk getur komið upp um nágrannann sem er að "brown-bagga" í ár.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristinsson

Þetta er einungis eitt af mörgum dæmum um það hversu frelsisskerðandi og hamlandi einkaleyfareglur eru orðnar í Bandaríkjunum. Einkaleyfi voru eitt sinn framfarahvetjandi en eru nú á æ fleiri sviðum að verða hemill á framfarir: þau auka á hagnað hægfara stórfyrirtækja en eru öllum öðrum til trafala og armæðu.

Að því gefnu að það sé nægileg samkeppni á þessum markaði má hins vegar búast við því að smátt og smátt muni afbrigði með frjálslegum notkunarheimildum verða ofan á (þar sem bændur munu frekar vilja kaupa þau), þannig að vonandi verður þetta einungis íþyngjandi í nokkur ár.

Baldur Kristinsson, 16.5.2006 kl. 16:06

2 Smámynd: Baldur Kristinsson

Væri ekki annars rétt að setja þessa færslu í flokkinn Vísindi og fræði fremur en Bloggar?

Baldur Kristinsson, 16.5.2006 kl. 16:07

3 identicon

er þetta erfðabreytt eðla þarna á myndinni sem hefur farið í gegn um genabreytingu hjá Margréti?

thora gunnarsdottir (IP-tala skráð) 16.5.2006 kl. 20:09

4 Smámynd: Ásta Kristín Hauksdóttir

Það má vel athuga þetta með bloggflokkinn, hef ekki tekið það mjög alvarlega hingað til. Takk fyrir ábendinguna, Baldur.

Og Þóra, þetta er frekar dæmi um þá atferlisbreytingar sem eru einmitt svo algengar í vistkerfi barnaherbergja.

Ásta Kristín Hauksdóttir, 16.5.2006 kl. 21:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband