Bloggfærslur mánaðarins, mars 2006
30.3.2006 | 21:52
Vorið er komið og grundirnar glóa
Sinueldar á Mýrum og fyrir nokkrum dögum rétt við flugvöllinn á Akureyri.
Það er subbulegt í Vesturbænum núna. Ég fór út í garð í dag og það er allt þakið fíngerðu, brúnleitu ryki, plöngur og garðhúsgögn og úps, sennilega sængurverið sem ég hengdi út áður en ég fattaði þetta. Mér finnst þetta veður eitthvað klístrað, þrátt fyrir birtu og (örlitla) hlýju. Grannarnir voru að grilla og mér fannst bara einhver brennifórnarbragur yfir því, lykt af sviðinni fitu og reykjarbólstrar. Veit ekki hvort það segir meira um skapið í mér eða eldamennsku grannanna.
Mágkona mín sendi okkur (les. mér) Hroka og hleypidóma þættina. Og ég datt svo gersamlega í þá að ég horfði á 4 í rykk og þurfti að beita mig hörðu til að fara í háttinn en halda ekki áfram. Síðan er ég búin að velta því fyrir mér hvað er svona heillandi við þá. Kurteisin, kannski. Þessi fínlegi dans orða og hneiginga. Eða allur fatnaðurinn. Ég er orðin svo þreytt á semiklámi og fáklæddu fólki að kappklætt fólk með hatta og stafi að daðra er ótrúlega eggjandi. Svo er ég náttúrulega og hef alltaf verið veik fyrir öllu sem enskt er. Ég held ég taki mig til og lesi nokkrar rómantíska standarda sem ég á hérna heima, Austen þar meðtalda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2006 | 12:29
Þvílíkur mánudagur
Rétt hádegi og nú þegar er meirihluti vinnudagsins farinn í annað en vinnu, ég búin að missa úr höndunum mat mannsins svo það skvettist tómatsósa upp í loft og rigndi svo yfir okkur og er að auki komin með hausverk. Og á allt eftir.
Forgangsraða upp á nýtt: Losna við hausverk, vinna, sækja minnstu og sinna húsverkum.
Sný mér þá að hausverknum...ommmmmmmmmmmmmmmm
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.3.2006 | 20:01
Frosnar lýs
Stærsti og minnsta eru komin að norðan og með þeim hestur að nafni Salka. Hann hefur brokkað hér um íbúðina og hneggjað og frísað í allan dag.
Ég þarf víst ekki að sápuþvo garðinn minn, frostið sér sennilega fyrir lúsinni. Vonandi ekki bruminu líka.
Ég missti mig í voræði á laugardaginn, var berfætt í skónum og svona. Það er ekkert skrítið, það er næstum óbyggilegt á þessu landi yfir bláveturinn, verður ekki gott fyrr en í maí. Andinn storknar og blóðið flæðir hægt og maður er eins og eðla í kuldanum. Svo hlýnar allt í einu og maður man hvernig er að vera algerlega lifandi en ekki í þessum hálfdvala.
Set mynd af snjódropunum með, ef mér heppnast það þá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2006 | 11:39
Mellur og minnimáttar
Ég horfði á meirihlutann af spænskri mynd í gærkvöldi, Piedraz, um nokkrar konur sem leituðu hamingjunnar hver með sínum hætti. Meðan ég horfði, rann það upp fyrir mér hvað spænskir kvikmyndagerðarmenn hafa gaman af konum, konum sem eru mellur og konum sem eru þroskaheftar eða geðveikar. Og hve spænskar konur tala með sérkennilegum áherslum og raddblæ. Svona hvískrandi og ásakandi.
Annars hafðist þetta bæði með hlaupið og myndavélina, tók meira að segja hina krúttlegustu mynd af snædropunum sem eru búnir að blómstra vikum saman undir rifsberjarunnunum mínum. Tók líka mynd af brumi á fuglakirsinu og tók þá eftir að helv. lúsin er mætt og farin að spinna. Þarf sem sagt að byrja að sápuþvo garðinn minn í vikunni.
Sonurinn kom heim glaður í bragði eftir sunnudagskvöldverð hjá afa og ömmu með skemmtilega hryllilegt leikfang frá litlu frænkum sínum. Það er gúmmíhauskúpa sem maður kreistir og þá þrýstist út um aðra hvora augntóttina glær belgur með blóði og lirfum. Já, já...
En skattmann bíður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2006 | 19:25
Seinna sama lummulaugardag
Minnsta heyrði foreldrana tala um veðrið: "Bara fínt fyrir norðan?" "Já, 14 stiga hiti og sól á veröndinni" Þá segir skottið: "Það er alltaf gott veður á Akureyri." Ég sendi manninum grunsemdaraugnaráð. "Ég hef aldrei sagt þetta við hana!", sagði hann strax.
Þá er það sannað mál. Þetta er greinilega genetískt og hefur þróast á þessu ákveðna svæði. Þeir sem ekki sáu akureyrskt veður sem hið eina, sanna veður hafa verið drepnir á barnsaldri fyrir átthagasvik og því aldrei náð að fjölga sér. Eða gerðir útlægir og dreift sér um afganginn af landinu þar sem þeir þrífast.
Ekki enn komin í skokkið og myndavélina, keypti hinsvegar margar tegundir af tei í Söstrene Grene og er búin að prófa tvær. Laugardagskvöldið fer sem sagt í að smakka nokkrar mismunandi tegundir af jurtatei. Þetta væri dapurlegt ef það væri ekki svona..lummulegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2006 | 12:09
Lummulaugardagur
Stærsti og minnsta eru að fara norður í dag. Minnsta er gríðarlega spennt og hefur talað stanslaust og mjög hátt frá því hún vaknaði í morgun. Svo fór hún í íþróttaskólann og var jaskað dálítið út þar og er orðin hljóðari núna. Grunar að hún sofni jafnvel í vélinni á leið norður.
Við hin í miðjunni verðum því ein heima og til stendur að a) læra á myndavélina b) skokka c) taka gamla og lúðalega hryllingsmynd. Þess á milli verður lummast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)