Gullinbrúnn, húðin sem sól...

Ég held að mín miðlífskreppa hafi amk eina mjög jákvæða birtingarmmynd. Hún er sú að ég er að enduruppgötva tónlistina sem ég hafði svo gaman af í den. Nýji Supertrampdiskurinn, Janis Joplin og Stranglers eru ofarlega á listanum þessa dagana. Það líður varla sá dagur að ég sé ekki í gríðarlegum fíling að syngja og dansa með góða tónlist í eyrunum. Ég er nýbúin að kaupa safndisk með Stranglers, Peaches, og á honum er eilíft uppáhaldslag mitt "Golden Brown". Það er magnað, bæði lagið og textinn, og sendir mig milliliðalaust aftur í skemmtilega fortíð.

Í dag fengum við ljúfa heimsókn frá litlum frænda frá Akureyri. Hann féll ágætlega inn í krakkahópinn sem háði hroðalegan galdrabardaga í garðinum svo við gullu særingar og stýribölvanir daglangt. Ég er ekki frá því kötturinn sé hálftætingslegur eftir þetta, hefur sennilega lent í fleiri en einni lömunarsendingu. Ég notaði tækifærið til að þrífa og fór með jöfnu millibili út í glugga: "Hver átti að tilkynna sig heim klukkan 4?" "Átti ekki einhver að fara heim klukkan 5?". Eitt hlutverk mömmunnar í dag ef nefnilega að fylgjast með klukkunni fyrir liðið og lána farsímann sinn til að gormarnir geti hringt heim og samið um að vera "bara pínu lengur, ég er Harry núna og hann stjórnar."

Litla manneskjan fékk líka að blómstra og fara í mömmó með einn enn minni nágranna sem lét sæmilega að stjórn og þurfti hjálp með rennilása og fleira.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband