18.4.2006 | 12:17
Blessaður Borgarfjörðurinn
Ég er að leggja síðustu hönd á niðurpakkelsið fyrir nótt í sumarbústaðnum hennar systur minnar. Þetta er frekar einfalt mál, náttföt og tannburstar og svo alklæðnaður fyrir stærri gorminn sem telur ferðina ekki velheppnaða nema hann detti amk einu sinni í skurð eða bara Norðurá.
Þetta verður yndislegt, húsið sjálft er heilt ævintýri og svo bætist við umhverfið og síðast en ekki síst góður félagsskapur.
Vorfiðringurinn, sem hefur verið minnst á hér fyrr, er nú aftur að heltaka mig og hér heima er öllu sáð sem hugsanlega gæti spírað. Því er borðstofuglugginn nú fullur af örlitlum eplatrjám, basiliku og paprikuplöntu sem skartar einni stórri og þremur litlum paprikum og von á fleiri. Svo gekk ég frá breytingum á garðinum við grönnu mína hér á neðri hæðinni svo ég get byrjað að moldvarpast strax í næstu viku ef veður leyfir.
Ahhhh...la vita e belle.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.