Mus musculus

c_documents_and_settings_owner_my_documents_my_pictures_musin_musin.jpg

Ég veit ekki hvort þú manst það, en hér fyrr í blogginu skrifaði ég um það þegar Margrét hafði það í gegn að keypt yrði músagildra af því "maður bíður þar til kemur mús og setur hana í gildruna". Þetta var skrifað af ákveðnu yfirlæti mömmunnar sem veit betur. Eða taldi sig gera það.

Við Margrét vorum að koma heim eftir leikskóla á miðvikudaginn. Þegar ég gekk fram hjá baðherberginu sá ég Brand þar inni. Ég gekk áfram til að losa mig við fötin og....spóla til baka. Brandur á baðherberginu?! Gerist ekki. Nema með aðstoð 1-2 fullorðinna, fílefldra manneskja.

Ég leit því aftur inn og sá hvar hann lá í makindum á baðmottunni. Með mús í kjaftinum. Ég skellti hurðinni svo hún kæmist ekki inn í íbúðina og sagði Margréti að fara frá, svipti aftur upp hurðinni og stökk inn. Og öskrandi upp á klósett því Brandur hafði sleppt músinni sem skaust um gólfið. Já, ég skammast mín fyrir þetta. Svo æpti ég til Margrétar að ná í músagildruna og rétta mér. Þegar ég var komin með hana í hendurnar, náði ég músinni og fór sigrihrósandi með hana fram. Svo það er greinilegt að Margrét vissi hvað hún söng þarna um árið. Brandur sat undrandi eftir, hefur sennilega reiknað með að ég ætlaði með hana á diskinn hans.

Mýsla var skoðuð í bak og fyrir, sökuð um að vera rottuungi en eftir leit á netinu kom í ljós að þetta var húsamús. (Veit ekki hvort latínuheitið hér að ofan er rétt en held það.) Hún fékk gráfíkju með smjöri og osti inn í gildruna og var skoðuð meira og ljósmynduð meðan hún brölti yfir matinn sinn og makaði sig alla út.

Svo keyrðum við með hana niður í Ánanaust og slepptum henni þar undir stein. Á leiðinni fékk ég endanlega sönnun þess hvaða dýr þetta væri þegar sterka músarlykt lagði um bílinn.

Til allrar hamingju rættist spá Kristjáns ekki en hún var sú að Brandur kæmi heim daginn eftir með mús í kjaftinum og spyrði: "Má ég fá smjör á þessa líka?"


c_documents_and_settings_owner_my_documents_my_pictures_musin_img_0094.jpg

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Auðvitað ekki. Þið takið af honum það sem hann er búinn að vinna fyrir. Af hverju ætti hann að koma með aðra???

thora gunnarsdottir (IP-tala skráð) 24.9.2006 kl. 09:16

2 Smámynd: Ásta Kristín Hauksdóttir

Hvað átti ég að gera? Úrbeina músina fyrir hann? Og hvað er þetta eiginlega með ykkur Brand og fórnarlömb hans?

Ásta Kristín Hauksdóttir, 24.9.2006 kl. 19:00

3 identicon

Ha ha, segðu svo að Brandur sjái ekki um sinn hlut í að afla matar fyrir heimilið!

Adda G. Sigurjónsdóttir (IP-tala skráð) 24.9.2006 kl. 19:28

4 identicon

Held að þú þurfir að láta kanna barnið. Þvílík forsjálni í þessu kríli. Og ég trúi henni sko alveg líka til að segja við ykkur foreldrana " Þetta sá ég fyrir. Þið hefðuð átt að gera meira gys að mér á sínum tíma þegar ég heimtaði að þetta yrði keypt" Flott hjá þér Margrét!

thora gunnarsdottir (IP-tala skráð) 24.9.2006 kl. 21:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband