17.6.2006 | 20:46
17. júní 2006
Það voru borðaðar pulsur og nammi. Farið með Silvíu Night, International Superstar í blöðrulíki niður í bæ (þar sem hún hitti margar eins fyrir) og flaggað dálítið krumpuðum fána sem fannst upp í skáp.
Við lentum beint á sýningu hjá Brúðubílnum. "Ég hef nú séð þessa sýningu áður." sagði Margrét. Svo veraldarvanir þessir leikskólakrakkar. En það var nú samt gaman. Í Hljómskálagarðinum var nógu mikið af fólki til að 20 mínútna biðraðir voru við alla hoppikastala og rennibrautir. Við Margrét létum okkur hafa það en Egill nennti ekki að standa í því og skemmti sér í staðinn í stóru klifrugrindinni. Við enduðum svo öll þar og hápunkturinn var óneitanlega þegar tveir fallhlífastökkvarar flugu yfir okkur og lentu svo, mjög lipurlega, í svona 20 metra fjarlægð.
Þegar við fórum heim vorum við Egill orðin blaut í fæturna. Málið er nefnilega það að Hljómskálagarðurinn, amk sunnan við Tjörnina, er orðinn að mýri eftir vegaframkvæmdirnar og stóru hljóðmönina sem er búið að moka upp að sunnanverðu. Ég kom þarna í vor, áður en gróður fór að spretta, og gekk þá fram á töluvert stóra uppsprettu við hljóðmönina (furðulegt orð) og það var vatn yfir öllu svæðinu. Í dag dúaði jörðin og það bullaði upp vatn í hverju skrefi. Ég sting upp á að öll jarðröskunin hafi breytt einhverjum af- eða aðrennslisfarvegum úr Vatnsmýrinni og Reykvíkingar eigi nú mýri í stað lystigarðs þarna.
Á leiðinni heim litum við á magadansmeyjar á Ingólfstorgi. Ein þeirra var svona 8 mánuði gengin og dillaði bumbu og bossa af engu minni getu en hinar. Mig grunar að hún muni fara létt með fæðinguna.
Alla vega: Gleðilega þjóðhátíð!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.