Magi Reykjavíkur

Fyrir nokkru las ég pistil, eftir karlmann sem ég man ekki nafnið á og í riti sem ég man ekkert um heldur. Það sem er mér minnisstætt er að þar fann ég einhvern annan en mig sem langaði til að fá matarmarkað í Reykjavík. Hann gaf honum heitið "Magi Reykjavíkur".

 Ég hef látið mig dreyma um íslenskan matarmarkað frá því ég bjó á Spáni. Þar væri hægt að fá allan matinn sem fylgir hverri árstíð hér og í löndunum í kring:

Á vorin rauðmaga, hrogn og bjargfuglaegg. Kindakjöt úr vorslátrun.

Sumrin færðu okkur blóðberg, hvönn og annað gott krydd, rabarbara, hundasúrublöð í salöt og stilkana í súpu, fíflamarmelaði og fíflavín, söl og skelfisk, lax og silung, bæði nýjan og reyktan. Kannski jarðarber frá Norðurlöndunum.

Seinni hluta sumars og fram á haust væri gnótt uppskeru: Kartöflur, gulrætur, rófur og kál, lyngber og runnaber og afurðir úr þeim; sultur og vín. Kjötsúpuvagnar sem seldu ilmandi súpu úr nýslátruðu til að taka með heim eða borða á staðnum. Epli, perur, tómatar, laukar og fleiri ávextir og grænmeti utan úr heimi, sem væri tínt þroskað en ekki látið þroskast í ethylene-mekki í gámum á leiðinni til landsins eða ræktað hér langt fyrir norðan útbreiðslumörk undir gleri.

Veturinn færði okkur viðskiptavinum markaðsins svo villibráð og afurðir úr henni.

Allan ársins hring gæti maður gengið að góðum ostum vísum þar, bæði ær- og kúaostum. Kindabændur slátra nú allan ársins hring, kannski væri hægt að fá bragðmeiri kjúkling sem hefði nærst á öðru en eigin úrgangi og fengið að viðra sig, jafnvel hænuegg af sama stað. Fisksalinn stæði auðvitað keikur með allt sem smábátaeigendur fengu hér úti á Faxaflóa daginn áður og vínsalinn byði upp á allskyns vín og brennivín bragðbætt með einkennisjurt hverrar sýslu.

Hvernig væri að sameina matarhluta Kolaportsins og sveitamarkaðina á höfuðborgarsvæðinu, auk annarra svipaðra, undir einu, stóru þaki í nýja skipulaginu við Reykjavíkurhöfn?

Ég myndi kaupa þar inn á hverjum degi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

romantiskt og fallegt hja þer A´sta min en ástæðan fyrir því að þetta er ekki fyrir löööööngu komið heim er YFIRVÖLD....og hvernig þá?

í fyrsta lagi halda yfirvöld úti heilbrigðispolisíu sem banna bændum að selja annað en í Co-oppið. þeir sem slátra heima meiga ekki selja vöruna.

í öðru lagi eru yfirvöld hrædd við að handverksmaðurinn sé meiriháttar skattsvikari. skattur á handverksfólk er 24.5% af vörunni sem þeir selja auk tekjuskatts af ágóðanum. það er venjuleg manni ómögulegt að lifa af handverki á Íslandi

turilla (IP-tala skráð) 19.5.2006 kl. 09:41

2 Smámynd: Ásta Kristín Hauksdóttir

Kaupi þetta nú ekki, væna mín. Sjáðu bara Mjólku. Það er alveg hægt að fá lögum breytt, en það þarf að láta reyna á það. Og hvað hátt verð varðar, ég endurtek: "Ég myndi kaupa þar inn á hverjum degi", ég er viss um að það eru nógu margir mér sammála til að þetta gengi.

Ásta Kristín Hauksdóttir, 19.5.2006 kl. 13:23

3 identicon

og?

turilla (IP-tala skráð) 19.5.2006 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband