23.1.2007 | 13:16
Æ, mig auma
Hún Þorgerður Katrín, menntamálaráðherra, er alveg ótrúlega flott kona á allan hátt. Glæsileg, jafngömul mér, hefur af þrautseigju og metnaði komist til æðstu metorða innan karlaflokks Íslands. Er samt alvörukona svo það sést stundum á henni þreyta eins og okkur öllum.
Hún er mér fyrirmynd.
Hún var mér fyrirmynd.
Því þessi hlakkandi athugasemd hennar um að stjórnarandstaðan hafi "gefist upp" á málþófinu um útvarpsfrumvarpið sýnir að hún hefur lítinn sans fyrir því sem gerir okkur að almennilegum konum: Virðingu fyrir öðrum, hvort sem það eru andstæðingar eða aðrir. Stjórnarandstaðan hefur notað það eina vopn sem hún hefur til að ná fram sínum sjónarmiðum, eða að minnsta kosti nálgast þau, gegn meirihlutanum. Þrátt fyrir að framlagið hafi eflaust verið misgáfulegt voru þau að iðka lýðræði. Þau kunna að vera í lýðræðisstjórn. Menntamálaráðherra greinilega ekki úr því hún lítur á þetta sem einhvern slag þar sem sterkari segir: "Gefstu upp"?
Og ég er raunverulega leið því þarna fór önnur fyrirmynd mín á stuttum tíma í súginn. Hin, Ingibjörg Sólrún, datt af íkonaveggnum mínum þegar hún gat ekki viðurkennt það í aðdraganda síðustu kosninga að hún ætlaði ekki að sinna stöðu borgarstjóra nema þar til hún færi í þingframboð. Mér finnst ekkert að því að vilja ekki láta loka sig í einhverju embætti ef maður veit af öðru sem maður vill frekar, það er bara kvenlegt, en það er óheiðarlegt að viðurkenna það ekki og láta reyna á hvort kjósendum finnst það ekki í lagi, rétt eins og mér. Ég er enn sammála Ingibjörgu Sólrúnu með margt en ég lít ekkert upp til hennar lengur. Eflaust sættist ég á sama hátt við Þorgerði Katrínu þegar fram líða stundir. Ég veit að þeim tveimur væri nokk sama þótt þær eigi ekki lengur stóreygan aðdáenda úti í bæ enda er svoleiðis dýrkun bara vandræðaleg fyrir þær. En mér er ekki sama. Ég þarf að hafa konur sem ég get litið upp til. Nú þarf ég að finna einhverja aðra.
En menntamálaráðherra og þetta kléna útspil hennar fékk mig til að velta stóru máli fyrir mér: Ber þingfólk enga raunverulega virðingu hvort fyrir öðru. "Hæstvirt þingkona..." hefur reyndar fyrir löngu fengið það gildi að geta verið bæði kurteisi og háð. En hvað með annað? Þingið nýtur ekki mikillar virðingar lengur, kannski af því þingfólk sýnir hvort öðru ekki mikla kurteisi. Þá á ég ekki við ljót nöfn og aðdróttanir, svoleiðis getur gerst á bestu heimilum í hita leiksins. Ég á frekar við að samskiptin beri ekki keim af því að öll eru þau á þessum vinnustað af því (mismargir) kjósendur sendu þau þangað. Þau hafa öll umboð á bakvið sig, bara ekki frá sama fólki. Ef það er í lagi að gefa skít í að stjórnarandstaðan sé að reyna að koma fram málefnunum sem þau fengu umboð fyrir (svo nýjasta dæmið sé tekið) þá er verið að gefa skít í alla þá sem kusu þau. Má leiða þetta áfram? Ef þingfólk getur gefið skít í fólk sem er því ósammála, er þá í lagi að aðrir geri það líka? Get ég þá sagt við heimilisfólk mitt: Ég bjó til matinn, mér finnst hann góður, það kemur ekki til greina að salta hann betur og skítt með að þú sért með ofnæmi fyrir fisknum. Éttu hann samt. Ekki? Gefstu upp?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.