11.1.2007 | 16:24
Jólagjöf ársins
Í morgun komst ég að því að það er hægt að kaupa sér áruhreinsara í úðaformi. Það gleður mig mikið enda er ég orðin langþreytt á að nota venjulega tusku sem skilur bara eftir sig strik. Æ, þið vitið hvernig þetta er, martröð allra húsmæðra. Ég læt slóðina fylgja:
http://www.puls.is/xodus_product.aspx?MainCatID=9995&id=20
Mikið er þessi snjór æðislegur. Örfín logndrífa sem býr til rjómabollur úr hverju sem undir verður. Best að kippa með sér snjótþotunni þegar ég næ í Margréti og tæta svo og trylla á leiðinni heim. Kannski fylgir Brandur okkur, hann gerir það gjarnan þegar við leikum úti. Sérstaklega í snjó. Þá leikur hann moldvörpu og plægir í gegnum snjóinn svo ekkert stendur upp úr nema skottið.
En fuglarnir eiga dálítið bágt. Ekki get ég gefið þeim lengur....helv. kötturinn...en þið skuluð vera dugleg. Fyrir utan þýðendadeild RÚV er alltaf slatti af hröfnum, mér skilst að þeir séu 6 sem hafa lögheimili þar, og þar eru þeim gefnir afgangar úr mötuneytinu þegar harðnar í ári. Þeir eru því feitir og fínir og einn þeirra tók fyrir okkur dans í morgun. Hann var að tosa eitthvað freðið æti undan snjónum og gerði það með því að grípa í það með goggnum og stökkva svo hátt upp og aftur á bak. Gerði þetta nokkrum sinnum þar til það losnaði og hann datt næstum á bakið.
Ég telst víst orðin gömul í bransanum. Komst að því þegar ég var að finna gamla þýðingu á mynd sem á að fara að sýna í sjónvarpinu. Ég fann hana, las og komst að því að ég man EKKERT eftir henni. Eins og það hafi einhver annar en ég þýtt hana.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.