20.3.2006 | 11:39
Mellur og minnimáttar
Ég horfði á meirihlutann af spænskri mynd í gærkvöldi, Piedraz, um nokkrar konur sem leituðu hamingjunnar hver með sínum hætti. Meðan ég horfði, rann það upp fyrir mér hvað spænskir kvikmyndagerðarmenn hafa gaman af konum, konum sem eru mellur og konum sem eru þroskaheftar eða geðveikar. Og hve spænskar konur tala með sérkennilegum áherslum og raddblæ. Svona hvískrandi og ásakandi.
Annars hafðist þetta bæði með hlaupið og myndavélina, tók meira að segja hina krúttlegustu mynd af snædropunum sem eru búnir að blómstra vikum saman undir rifsberjarunnunum mínum. Tók líka mynd af brumi á fuglakirsinu og tók þá eftir að helv. lúsin er mætt og farin að spinna. Þarf sem sagt að byrja að sápuþvo garðinn minn í vikunni.
Sonurinn kom heim glaður í bragði eftir sunnudagskvöldverð hjá afa og ömmu með skemmtilega hryllilegt leikfang frá litlu frænkum sínum. Það er gúmmíhauskúpa sem maður kreistir og þá þrýstist út um aðra hvora augntóttina glær belgur með blóði og lirfum. Já, já...
En skattmann bíður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2006 | 19:25
Seinna sama lummulaugardag
Minnsta heyrði foreldrana tala um veðrið: "Bara fínt fyrir norðan?" "Já, 14 stiga hiti og sól á veröndinni" Þá segir skottið: "Það er alltaf gott veður á Akureyri." Ég sendi manninum grunsemdaraugnaráð. "Ég hef aldrei sagt þetta við hana!", sagði hann strax.
Þá er það sannað mál. Þetta er greinilega genetískt og hefur þróast á þessu ákveðna svæði. Þeir sem ekki sáu akureyrskt veður sem hið eina, sanna veður hafa verið drepnir á barnsaldri fyrir átthagasvik og því aldrei náð að fjölga sér. Eða gerðir útlægir og dreift sér um afganginn af landinu þar sem þeir þrífast.
Ekki enn komin í skokkið og myndavélina, keypti hinsvegar margar tegundir af tei í Söstrene Grene og er búin að prófa tvær. Laugardagskvöldið fer sem sagt í að smakka nokkrar mismunandi tegundir af jurtatei. Þetta væri dapurlegt ef það væri ekki svona..lummulegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2006 | 12:09
Lummulaugardagur
Stærsti og minnsta eru að fara norður í dag. Minnsta er gríðarlega spennt og hefur talað stanslaust og mjög hátt frá því hún vaknaði í morgun. Svo fór hún í íþróttaskólann og var jaskað dálítið út þar og er orðin hljóðari núna. Grunar að hún sofni jafnvel í vélinni á leið norður.
Við hin í miðjunni verðum því ein heima og til stendur að a) læra á myndavélina b) skokka c) taka gamla og lúðalega hryllingsmynd. Þess á milli verður lummast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)