30.3.2006 | 21:52
Vorið er komið og grundirnar glóa
Sinueldar á Mýrum og fyrir nokkrum dögum rétt við flugvöllinn á Akureyri.
Það er subbulegt í Vesturbænum núna. Ég fór út í garð í dag og það er allt þakið fíngerðu, brúnleitu ryki, plöngur og garðhúsgögn og úps, sennilega sængurverið sem ég hengdi út áður en ég fattaði þetta. Mér finnst þetta veður eitthvað klístrað, þrátt fyrir birtu og (örlitla) hlýju. Grannarnir voru að grilla og mér fannst bara einhver brennifórnarbragur yfir því, lykt af sviðinni fitu og reykjarbólstrar. Veit ekki hvort það segir meira um skapið í mér eða eldamennsku grannanna.
Mágkona mín sendi okkur (les. mér) Hroka og hleypidóma þættina. Og ég datt svo gersamlega í þá að ég horfði á 4 í rykk og þurfti að beita mig hörðu til að fara í háttinn en halda ekki áfram. Síðan er ég búin að velta því fyrir mér hvað er svona heillandi við þá. Kurteisin, kannski. Þessi fínlegi dans orða og hneiginga. Eða allur fatnaðurinn. Ég er orðin svo þreytt á semiklámi og fáklæddu fólki að kappklætt fólk með hatta og stafi að daðra er ótrúlega eggjandi. Svo er ég náttúrulega og hef alltaf verið veik fyrir öllu sem enskt er. Ég held ég taki mig til og lesi nokkrar rómantíska standarda sem ég á hérna heima, Austen þar meðtalda.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.