1.4.2006 | 09:43
Framnesvegurinn glóir líka
Ef það er ekki beinlínis aprílgabb þá hefur verið kveikt í bíl hér á Framnesveginum í nótt. Að sjálfsögðu varð enginn á þessu heimili var við það frekar en þá jarðskjálfta og innbrot sem hér hafa yfir dunið. Við höfum víst svona góða samvisku. Mér finnst þetta dálítið óhuggulegt, verður hugsað til Parísar og svona.
En þetta er skelfilegt með Mýrarnar. Hugsa sér að eiga sígarettuna sem kveikti eldinn. Eða hvað það nú var. Ég hef ekki verið sátt við sinubruna frá því ég fór að læra plöntulíffræði. Finnst þetta ein birtingarmynd þessarar sífelldu mismununar grasa yfir annan gróður. Sem er náttúrulega undirstaða drottnunar sauðkindarinnar yfir íslenskum gróðri nema rétt þar sem skjáturnar hreinlega komast ekki að honum.
En talandi um aprílgabb, ég hef ekki séð neitt enn og ekkert hlaupið enn. Er aprílgabbið ekki í einhverri lægð þessi síðustu ár? Kannski erum við orðin svo spéhrædd og móðgunargjörn að við tökum ekki sénsinn á að láta lítillækka okkur. Ég held að aprílgabbið sé upprunnið úr kjötkveðjufagnaði fyrri alda þegar almenningur fékk örfáa daga á ári til að gera grín að aðalnum. Þá var vinsælt að klæða þorpsfíflið í konungsskrúða og láta það leiða skrúðgöngu álíka hirðmanna. Heitir aftignun, á fínu máli og er nátengt hugtakinu gróteska sem var svo vinsælt í allri menningarumræðu hér fyrir svona 10 árum.
Gróteskan í aprílgabbi landans felst aðallega í að láta okkur hlaupa eftir gylliboðum um hræbillega bíla eða útigrill eða loforðum um furðulegar sýningar. Semsagt að fá og horfa. Já, meira að segja aprílgöbbin eru ekki næstum góð og í gamla daga. Mitt uppáhald er þegar Bylgjan sló upp stórfrétt um að MacDonalds ætlaði að stefna Kópavogskirkju fyrir ólöglega notkun á lógói fyrirtækisins. Það var rætt við prestinn sem viðurkenndi að hann hefðu sótt heim alvarlegir menn í dökkum fötum með stresstöskur og heimtað að útlitil kirkjunnar yrði breytt.
Athugasemdir
man eftir því gabbi...en braut þá prestsauminginn ekki eitthvað borðorð....um að ljúga ekki...hmmmm
turilla (IP-tala skráð) 1.4.2006 kl. 14:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.