27.1.2007 | 23:22
Heimurinn stækkaði
Lyktarskynið er eitt elstu skynfæranna. Það hefur beinni taugaleið inn í heilann en flest önnur skynfæri okkar og liggur að lyktarskynsberki auk þess sem taugar tengdar lyktarskyni liggja til möndlu (amygdala) og í dreka (hippocampus) sem eru tilfinninga- og minningastöðvar. Það er ástæða þess að ákveðin lykt getur kveikt með okkur mjög sterkar minningar og tilfinningar.
Frá því ég man eftir mér, hef ég tekið eftir lykt og tengt hana fólki og stöðum. Ég hef ekkert betra lyktarskyn en gengur og gerist, ég virðist bara nota það meira vísvitandi en flestir sem ég þekki. Minn skynheimur er því kannski obbolítið öðruvísi en þinn. Ég hugsa í litum, hljóðum, orðum og öllu hinu en þess utan líka í lykt.
Þar sem okkar menning skammast sín fyrir lykt, hef ég ekki mikið auglýst þetta.
Ég er nýbúin að komast að því að það er til fullt af fólki sem finnst sjálfsagt að halda úti heilum vefsíðum um málið og gera list úr lykt. Það eru að sjálfsögðu til ilmvatnsmeistarar og ilmsagnfræðingar, það vissi ég, en þarna er líka fólk sem hefur einfaldlega lyktarheiminn að áhugamáli, rétt eins og ég, og gerir ekki endilega greinarmun á dýrustu ilmvötnum og lyktinni af malbiki eftir rigningu eða mismunandi mengunarlykt borga. Svo er alltaf verið að rannsaka lyktarskyn manna og áhrif þess á atferli okkar.
Þetta var bloggið sem ég datt inn á og hef síðan kannað slóðirnar sem liggja þaðan:
http://perfumesmellinthings.blogspot.com/
Þessi hér er mjög skemmtileg:
http://www.sirc.org/publik/smell.pdf
http://www.sirc.org/publik/smell_culture.html
og margar, margar aðrar - heill heimur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.