Færsluflokkur: Matur og drykkur

Slúbbert

Þeim fækkar, réttunum sem börnin mín borða með góðri lyst. Og mér sem finnst svo gaman að horfa á þau borða eitthvað með virkilegri ánægju. Um daginn datt ég niður á uppskrift að Sloppy Joe's, sem fékk umsvifalaust nafnið Slúbbert hjá mér. Hann hefur vakið stormandi lukku og kemst á eftirsóknarverðasta listann: "Fljótlegt, ódýrt og ekki svo óhollt" Í stuttu máli maukar maður slatta af lauk, hvítlauk, gulrótum, sellerí og steinselju, steikir létt, blandar svo saman við það hakki eða fínsöxuðu kjöti af hvaða skepnu sem er, mæli samt með svíni og kjúkling, hellir yfir slatta af Worchestershiresósu og einni dós af tómatsúpu. Mallar í 45 mínútur undir loki, styttra með kjúklingi. Svo er þessu mokað á hamborgarabrauð eða eitthvað huggulegra, kannski kjallarabollu eða gróft rúnnstykki og...eins og segir í uppskriftinni: "...troðið í andlitið."


Vesturbæjarrómantík

Ætli ég sé ekki bara orðinn Vesturbæingur, ég sem ólst upp í Vogahverfinu. En frá því ég flutti að heiman hef ég búið fyrir vestan læk, að frátöldum nokkrum mánuðum í bílskúr með torfþaki við Langholtsveginn og hálfu ári í Salamanca. Árin hér eru orðin fleiri en árin í Hlunnavogi.

Mér datt þetta í hug í gær þegar ég sat á Icelandic fish and chips og týndi upp í mig mjög góðar steiktar kartöflur, löðrandi í olíu og steinselju. Svo var skyronnaise sósa með með en, æ, hvað hefur fólk á móti majónesi? Það er meinhollt, að mestu úr olíu og egg eru bara góð fyrir mann. Þetta er ágætur staður, matseðillinn leit vel út og verðið er sanngjarnt. En aðalatriðið fyrir mig var að ég gat setið og horft út á höfnina og á Esjuna meðan ég borðaði. Höfnin er bara best. Og auðvitað Esjan líka. Það er komið Te og Kaffi útibú í gamla Ellingsen húsið, heitir nú Salthúsið og er að helmingi fyllt últrasmart hönnun og að helmingi góðu kaffi og með því. Nú get ég því skeiðað á tvo staði í nágrenninu og fengið góðar veitingar og horft á vinnandi fólk á meðan, það er svo afslappandi. Ég er ekki að gleyma Kaffivagninum, alls ekki, þar er stemningin engu lík og ég fer að fara þangað aftur þegar verður búið að banna reykingar þar. (Er það kannski búið nú þegar?) Ég vann nefnilega þar í nokkarar ógleymanlegar vikur í den og minningarnar eru svo reykfylltar að mér verður ómótt bara að hugsa til þess.

Í næstu viku drekk ég hinsvegar Starbucks í New York. Hlakka mikið til.


Það var lagið!

Við færumst nær því að fá matvælaframleiðslu heim í hérað og þar með nær því að íslenskur matur verði betri og, umfram allt, fjölbreyttari.

Þá er bara að vinda sér í framleiðslu á sauðaosti. Er ekki einhver til í það?


mbl.is Geitaostur framleiddur í Búðardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afgangar lifi!

Kannski fékk ég nóg af fínum mat um hátíðarnar, kannski vil ég bara snobba niður en hvað sem veldur, þá finn ég þessa dagana fyrir mikilli löngun í upphitaða afganga. Eða bara ekkert upphitaða, bara borðaða beint úr plastboxinu úr ísskápnum.

Þetta minnir mig líka svo ljúflega á þegar ég var sísvangur unglingur sem lagðist í ísskápinn þegar skóladegi lauk.

Til dæmis má nefna kalda kálböggla með rúgbrauði og miklu smjöri; sömu kálböggla hitaða á pönnu með kartöflum þar til vel brúnað og borið fram með rifnum osti; ofnsteikta kjúklingabita í raspi - betri kaldir en heitir; soðnar kartöflur frá í gær, steiktar í miklu smjöri og kryddaðar með salti, pipar og kannski smá papriku, jafnvel chilli; kaldan, steiktan þorsk, rifinn niður í salat með baunum og majónesi og kannski eplabitum - fínt með góðu brauði og svo framvegis og svo framvegis, þó ekki ad nauseum.

Þetta er sér matarkúltúr, frjór og ódýr og laus við alla þá tilgerð sem er farin að tröllríða matargerð.


Listvinafélagið Skúli í Túni

Nú eru síðustu dagarnir mínir hérna í húsakynnum Listvinafélagsins Skúla í Túni. Ég hætti um mánaðarmótin.

Þetta er búið að vera mjög gaman, góður félagsskapur og alveg sérlega dýnamískt húsnæði. Aldrei að vita hvaða listsköpun mætir manni á morgnana. Ég hætti því með trega í hjarta. Í lokin vil ég benda á slóð félagsins: www.skulituni.com

 

Adieu.....


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband